144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:07]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka spurninguna og sömuleiðis hugleiðinguna um fullveldi. Þar er ég fullkomlega sammála hv. þingmanni.

Nú er ég ekki og rekur ekki minni til þess að hafa nokkurn tímann verið meðlimur í hvorugum stjórnarflokknum þannig að ég vil síður reyna að gera mér í hugarlund hvað vakir fyrir fólki, í það minnsta er mér það ekki sérstaklega ljóst. Manni dettur í hug að hér geti verið um að ræða sambland af eins konar óskhyggju um að hæstv. ríkisstjórn geti komið sínum vilja eða ósk sinni í gegn um að hugmyndin um Evrópuaðild Íslands hverfi og gleymist og jafnvel einhvers konar hroka yfir því að nú hafi þeir þvílíkt vald að það sé á þeirra valdi að taka þá ákvörðun fyrir fullt og allt. Hvorugt get ég í raun og veru sætt mig við. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki dýpri skilning þá á því hvernig pólitík virkar, að ég átta mig ekki á því hvers vegna ákvarðanir hafa verið teknar svona. Mig rennir þó í grun að það geti verið vegna einlægs vilja ákveðinna aðila í pólitíkinni og ákveðinna hagsmuna í samfélaginu til þess að koma í veg fyrir að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu og til þess að koma í veg fyrir að þjóðin fái að sjá hvað sé í boði þegar samningi hefur verið landað. En hvað veit ég, aumur þingmaður með tiltölulega stutta þingreynslu? Ég get eiginlega ekki svarað þessu og þess vegna er ég í þeirri ólíkindalegu stöðu að styðja þingsályktunartillögu um að halda einhverju áfram sem þingið hefur (Forseti hringir.) þegar ákveðið.