144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrirsögn greinar sem birtist í DV föstudaginn 10. apríl síðastliðin vakti athygli mína, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Þetta er stórt samfélag.“

Hér er um að ræða spilaklúbb á höfuðborgarsvæðinu, að líkindum ólöglegan. Í greininni segir að háar fjárhæðir skipti um hendur og þessir klúbbar auglýsa starfsemi sína grímulaust á samfélagsmiðlum. Slík starfsemi er óheimil og refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum en án sannana geta yfirvöld lítið aðhafst. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir ákvæði hegningarlaga gætir þversagnar í lögum þar sem ýmis fjárhættuspil eru heimiluð á grundvelli sérlaga og þess utan er hægt að stunda fjárhættuspil á vefsíðum sem eru vistaðar utan íslenskrar lögsögu og eftirlit því ómögulegt.

Virðulegi forseti. Þetta er staðan, gildandi löggjöf er þannig að hér þrífst starfsemi án eftirlits í eins konar svartholi, engar tekjur í ríkissjóð og réttarverndin er engin.

Í nefndri grein kemur meðal annars fram dæmi um uppsafnaðar skuldir einstaklings upp á 5 millj. kr. Virðulegi forseti. Ég hef nú í tvígang lagt fram frumvarp um spilahallir en störf þingsins ganga þannig að ég hef ekki enn sem komið er fengið að mæla fyrir því. Markmiðið með frumvarpinu er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra, að setja slíkri starfsemi almenna lagaumgjörð þannig að hún fari fram undir opinberu eftirliti. Þetta mál snýst um öryggi, réttarvernd og eftirlit, að uppræta ólöglega spilastarfsemi, skýr skilaboð um það hverjir eiga erindi, snýst um ríkistekjur, snýst um afþreyingu í ferðaþjónustu. Ég tel að það sé full ástæða fyrir löggjafann að taka þetta mál á dagskrá.