144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns kom það margsinnis fram af minni hálfu og margra í stjórnarmeirihlutanum í það minnsta að það hvernig við fórum með rækjuna var engan veginn fordæmisgefandi fyrir það sem á eftir kæmi heldur vorum við að leysa úr flækju sem síðasta ríkisstjórn kom þeim stofni í algjörlega að ósekju.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Varðandi ofveiðina á árinu 2013 sem hann nefndi höfðum við á þeim tíma verulegar athugasemdir við ráðgjöfina eins og margir aðrir, Norðmenn reyndar líka sem töldu að stofninn væri mun stærri eins og síðar kom á daginn, 2014. Engu að síður er það rétt hjá hv. þingmanni að þegar þrjú strandríki sömdu um þetta tóku þau sér óeðlilegan hlut og gerðu ekki ráð fyrir eðlilegum hlut til handa þeim sem voru að veiða úr stofninum hvort sem er sem endar þá í einhvers konar ofveiði miðað við þá ráðgjöf sem var gefin á árinu 2014. Hún var þó leiðrétt talsvert frá fyrri árum sem var án efa vanmat á stofninum.

Varðandi hlutdeild smábátanna og það hvort við tökum ekki tillit til þeirrar veiðireynslu er það einmitt gert. Þar er mismunandi árafjöldi og var tekið tillit til reynslunnar. Við erum búin að stýra veiðum ísfisk-, uppsjávar- og frystiskipa með handafli undanfarin ár og við erum að byggja á þeirri veiðireynslu sem skapaðist eftir fyrstu veiðarnar. Við horfum til frumkvöðla manneldisvinnslunnar á árunum 2008/2009 eða 2009/2010, ég man ekki hvort var, þeim til handa sem þeir geta sótt um til að auka hlutdeild sína um allt að 5%. Veiðireynsla smábátanna varir alveg frá 2009–2014 þannig að þar er tekið alveg sex ára tímabil og viðurkennt að þar fóru út bátar og vörðuðu leiðina, fundur leiðirnar til að nýta þetta sem var líka eðlileg (Forseti hringir.) viðbótarframleiðni. Ég vildi fá að svara þessu strax.