144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt töflu í frumvarpinu, og ég vil segja að ýmis mikilvæg og góð gögn fylgja með því eins og auðvitað á að vera, byrjuðu línu- og handfæraveiðibátar ekki að veiða fyrr en 2010 og veiddu þá 179 tonn. Árið eftir fóru þeir í 304 tonn, árið 2012 í rúm þúsund tonn, árið 2013 í tæp 4.700 tonn og árið 2014 var besta árið enda margir þá búnir að búa sig ævintýralega út á bátum eins og við höfum séð og þá veiddu þeir tæp 7.500 tonn þegar veiðarnar voru stöðvaðar. Það sem ég var að reyna að koma að var að mér finnst ósanngjarnt gagnvart þeim að þeir höfðu kannski ekki sama hvatann eða áræðið til að veiða makríl á fyrstu þremur árunum, þ.e. 2007, 2008 og 2009, þegar uppsjávarveiðiskip veiddu á fyrsta árinu 36.500 tonn, á öðru árinu 112 þús. tonn og 2009 116 þús. tonn. Þessi ár eru náttúrlega ekki tekin inn í viðmiðunarárin en eins og ég segi finnst mér ósanngjarnt yfirleitt að þetta sé ekki klárt þannig að til dæmis línu- og handfæraveiðibátaeigendur hefðu strax getað farið af stað af meiri krafti ef til þessarar hlutdeildarsetningar kæmi eins og ég er hér að gera að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Það sem ég hefði viljað segja áðan og ætla að nota örfáar sekúndur til að segja er að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að inn í byggðapottinn, 5,3%, hann er ekki meira en það, sem er notaður til aðstoðar við brothættar byggðir, byggðakvóta, línuívilnun og allt það, ætti að taka ákveðinn hundraðshluta af makrílnum. Mér þótti til dæmis mjög merkilegt þegar mér var bent á það af fiskverkanda og útgerðarmanni að það mátti ekki veiða makríl á línu eða handfæri um hásumarið fyrir Norðurlandi þegar hann er hvað feitastur og verðmætastur. (Forseti hringir.) Þessi fisktegund gæti verið kærkomin og góð viðbót inn í þennan litla 5,3% pott sem er mjög mikilvægur mörgum litlum byggðarlögum í erfiðleikum á Íslandi þrátt fyrir hvað hann er lítill.