144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:43]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að segja að frumvarp hæstv. ráðherra um kvótasetningu á makríl veldur mér og félögum mínum í Bjartri framtíð miklum vonbrigðum. Hér er einstakt tækifæri að taka þessa svo til nýju fisktegund og setja í það markaðsform sem ég heyri að flestir þingmenn vilja að sjávarútvegurinn gangi út á, en í stað þess er kvótinn tekinn og réttur þeim sem hafa aflað sér veiðireynslu, þeim réttur hann algjörlega án þess að þeir borgi eitthvað sérstakt fyrir. Jú, það á að borga 1,5 milljarða á ári að mér skilst fyrir sérstaklega þennan kvóta en í frumvarpinu er ekki sagt til um hvernig sú tala er fundin út eða hversu rétt hún sé.

Í fyrsta lagi hefði ég auðvitað viljað spyrja sjávarútvegsráðherra, ef hann hefði verið hér í salnum, um það af hverju … (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti mun gera hæstv. sjávarútvegsráðherra viðvart.)

Já, þakka þér fyrir það. Ég myndi vilja spyrja hvernig þessi fjárhæð var fundin út. Af hverju þessi verðmiði? Væri ekki eðlilegra að láta fyrirtækin sem fá þennan kvóta á silfurfati segja okkur með uppboðsleið hversu mikils virði hann er?

Samkvæmt frumvarpinu fer 90% kvótans til stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna á Íslandi. HB Grandi fær 14,2% af kvótanum, Samherji fær 12,7% af kvótanum, Ísfélag Vestmannaeyja fær 11,9% o.s.frv. Þegar ég heyri hv. formann atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, segja að hann hafi áhyggjur af því að þeir sterkari séu að yfirvinna þá minni og það sé áhyggjuefni að hlutdeildir séu að komast á færri hendur, en tala svo á sama tíma fyrir frumvarpinu og lýsa yfir ánægju með það, þar sem nákvæmlega þessi stærstu fyrirtæki fá hlutdeildirnar í hendurnar, þá skil ég hvorki upp né niður, verð ég að segja.

Ríkið er að afhenda stóru útgerðunum þetta, sem hafa auðvitað verið að veiða makríl, hafa áunnið sér veiðireynslu, án þess að setja gagnsæjan verðmiða á það, algjörlega án þess. Þessi fyrirtæki og önnur töldu þennan stofn vera það fjárhagslega arðbæran að þau fóru væntanlega í það að skuldsetja sig, breyta skipum og allt það, til þess að afla sér veiðireynslu. Það er ákvörðun þeirra fyrirtækja. En þau gera það auðvitað út af því að þau vita að það er í lögum á Íslandi að ef þú hefur veiðireynsluna færðu kvótann að lokum. Ef maður er nógu áhættusækinn í byrjun er manni ríkulega verðlaunað fyrir það með því að fá kvótann upp í hendurnar að einhverjum árum liðnum. Þetta er náttúrlega kerfi sem er algjörlega galið, verð ég að segja. Aðrir sem hafa ekki lánstraust hjá bönkum til þess að skuldsetja sig, til þess að fara í slíkar fjárfestingar, geta ekki öðlast veiðiréttindin eins og hinir stærri. Og þegar fólk talar hér um að þeir hafi áhyggjur af því, eins og hv. formaður atvinnuveganefndarinnar, að hinir sterkari séu að yfirvinna þá minni, er það bara nákvæmlega það sem er að gerast, þetta frumvarp og þessi leið stuðlar að því.

Hæstv. ráðherra hefur talað um að hendur hans séu bundnar. Hann verði að setja kvótann svona fram og afhenda þessum fyrirtækjum hann með þessari leið vegna álits umboðsmanns Alþingis frá því í fyrrasumar. Ég ætla aðeins að fara í gegnum það, kannski ekki sérstaklega hvað álitið snýst um, en það er sett fram út frá túlkun umboðsmanns Alþingis á ákvæði í 5. gr. laga nr. 151/1996 um veiðar utan lögsögu.

Ákvæðið er svona, með leyfi forseta:

„Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum. Veiðireynsla telst samfelld samkvæmt lögum þessum hafi ársafli íslenskra skipa úr viðkomandi stofni a.m.k. þrisvar sinnum á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðjungs þess heildarafla sem er til ráðstöfunar af hálfu íslenskra stjórnvalda.“

Þetta er það sem hæstv. ráðherra ber fyrir sig og segir, ef ég skil hann rétt — og mér þykir vont að hann sé ekki í salnum til þess að geta leiðrétt mig ef það er rangur skilningur — að hendur hans séu bundnar út af áliti umboðsmanns Alþingis. Og nú sé lögsókn í gangi og það gæti farið svo að dómstólar dæmdu ríkinu í óhag.

Þá bendi ég á í fyrsta lagi, þó með fullri virðingu fyrir umboðsmanni Alþingis, að hann er auðvitað ekki dómstóll, hann gefur álit. Og ef fólk heldur því fram og ég held að allir þingmenn geri það a.m.k. og meiri hluti þjóðarinnar, já öll þjóðin í rauninni, að það sé sannarlega þannig að þjóðin eigi auðlindina og að þjóðin eigi að fá arð af henni, þá getum við ekki tekið undir þau sjónarmið að kannski eigum við hana ekki samkvæmt einhverju svona. Ef dómsmál er um þetta þá verður það bara að hafa sinn gang. Við getum ekki sett lög út af hræðslu við eitthvað sem hefur ekki einu sinni reynt á. Ég vil minna á í þessu samhengi að ráðherrar og ríkisstjórnir hafa í fjöldamörg ár, allt frá því að þetta kerfi var sett á, verið að tína af aflaheimildum útgerða, t.d. í byggðapotta og engir dómar hafa fallið um að það sé ólöglegt. Þetta er ekki ólöglegt. Hvers vegna þessi hræðsla núna, að það megi ekki breyta neinu? Og við vitum líka að lögin sem við setjum eru mannanna verk og við erum að breyta þeim á hverjum einasta degi. Ef 5. gr. er eitthvert vandamál þá skulum við endilega fást við hana.

Þetta er í grunninn það sem ég vildi sagt hafa í ræðu minni. Ég set stórt spurningarmerki við þessa hræðslu við lögsókn, vænta lögsókn, sem gerir að verkum að við ætlum að kvótabinda makríl á þennan hátt og færa 90% af aflaheimildunum til stórra og stöndugra fyrirtækja sem þurfa ekki að borga neitt fyrir það, sem þurfa ekki að segja okkur hvers virði þau telja heimildirnar vera. Það er hægt að gera með uppboðsleið. Þetta eru stór og stöndug fyrirtæki, af hverju keppa þau þá ekki sín á milli til þess að ná þá í mest af heimildunum og borga ríkissjóði fyrir afnot í X-mörg ár? Það væri „ídeal“ leið að mínu mati.

Við í Bjartri framtíð leggjum til að við hendum þessu frumvarpi út af borðinu og við göngum strax í það að útfæra markaðslausn til úthlutunar heimilda í makríl, bara strax, og ég held að það ætti að vera verkefni hv. atvinnuveganefndar Við gætum gert það í skrefum, við gætum tekið inn 1/6 hlutdeildanna inn á ári þangað til allar hlutdeildirnar væru komnar og þá færi það á uppboðsmarkað. 5/6 hlutanna yrðu fyrst um sinn hjá þeim sem hafa veiðireynsluna, með því færum við einhverja millileið. En svo trappast það niður. Þá geta þessi stöndugu fyrirtæki ákveðið, ef þau vilja áfram vera í þessum rekstri, að bjóða í þær heimildir, nú eða bara alls ekki. Fólk talar um fyrirsjáanleika í sjávarútvegi og hann er mikilvægur. En sjávarútvegur er samt sem áður að sjálfsögðu ekkert ólíkur annarri atvinnustarfsemi að því leyti að menn taka áhættu, þeir taka lán og annað. Við eigum að lágmarka þau áhrif að við snúum öllu á hvolf hjá fólki, en það er ekki þar með sagt að fyrirtæki eigi að fá upp í hendurnar kvóta bara út af því að þau skuldsettu sig svo og svo mikið eða fjárfestu svo mikið. Mér finnst sá hvati vera algjörlega öfugsnúinn og ganga eiginlega ekki upp.

Ég sé að hæstv. ráðherra er mættur í salinn og mig langar að inna hann eftir því, ef hann vill svara mér í andsvari, hvort uppboðsleið hafi verið skoðuð og ef ekki, af hverju ekki. Ég er búin að minnast á álit umboðsmanns Alþingis sem ég heyri að ráðherra ber fyrir sig, og ég velti því fyrir mér af hverju hann vilji ekki láta á það reyna að láta dómstóla skera úr um það hvort Íslendingar allir eða einstaka útgerðir eigi sannarlega auðlindina.