144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1166, sem er 692. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld.

Með frumvarpinu er lagt til að veiðigjöld verði ákveðin á næstu þremur fiskveiðiárum með sama hætti og á yfirstandandi fiskveiðiári, 2014–2015. Í því felst að álögð veiðigjöld verða að fjárhæð til nokkru hærri en á yfirstandandi fiskveiðiári en í raun eru þau efnislega óbreytt enda er stuðst við sömu aðferðafræði við ákvörðun gjaldanna. Þá var gengið út frá þeirri meginreglu að gjöldin tæku mið af sveiflum í afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Betri EBT-afkoma fyrirtækjanna, eða hreinn hagnaður, samanber þá viðmiðun sem fallist var á að reikna út frá á síðasta ári, skilar því auknum tekjum til ríkissjóðs í ár. Í því felst að gjöldin sem reiknuð eru fyrir bolfisk og uppsjávarfisk samsvara tilteknu hlutfalli svonefnds hreins hagnaðar í sjávarútvegi, bæði í veiðum og vinnslu samkvæmt skýrslu Hagstofunnar, Hagur veiða og vinnslu.

Í skýringum með frumvarpinu er rakið að á grundvelli skýrslunnar fyrir árið 2013 og að því gefnu að heildaraflamagn verði það sama og lagt var til grundvallar við áætlun um veiðigjöld á yfirstandandi fiskveiðiári megi áætla, verði frumvarpið að lögum, að heildartekjur vegna veiðigjalda fyrir fiskveiðiárið 2015–2016 verði um 10,9 milljarðar kr. Þannig verður heildarfjárhæðin ákveðin líkt og í fyrra sem 35% af grunni, sem er allur hagnaður, þ.e. EBT, við veiðar og 20% af hagnaði í fiskvinnslu samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, reiknað annars vegar fyrir botnfisk og hins vegar fyrir uppsjávarfisk. Allur hagnaður af mjöl- og lýsisvinnslu er reiknaður sem vinnsla uppsjávarfisks sem og 22% af hagnaði í frystingu, en með því er tekið tillit til þess að vaxandi hluti uppsjávarfisks hefur verið frystur og unninn til manneldis á síðustu árum.

Með frumvarpinu er lagt til að það verði veiðigjaldsnefnd sem ákvarði veiðigjald á hvern nytjastofn árlega á grundvelli reiknireglna frumvarpsins, sem sagt sömu aðferðafræði og í fyrra. Frá þessari fjárhæð dragast frádráttarliðir samkvæmt frumvarpinu, sem eru að mestu óbreyttir að efni til frá fyrra ári. Þar er annars vegar um að ræða svonefnd frítekjumark og hins vegar tímabundna skuldalækkun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögunum en gera má ráð fyrir að þessi frádráttur nemi um 1,5 milljörðum kr. á næsta fiskveiðiári og því yrðu tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum um 9,4 milljarðar kr.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru mestmegnis tæknilegs eðlis í því skyni að leitast við að færa álagningu gjaldanna til betri vegar og mun ég sérstaklega gera grein fyrir þeim. Þá voru felldar út greinar veiðigjaldalaganna sem frá setningu þeirra hafa reynst óframkvæmanlegar og munu ekki koma til framkvæmda.

Afsláttur gjaldanna tekur nokkrum breytingum vegna breytinga á útreikningi gjaldsins. Skuldaafslátturinn svonefndi, sem settur var til bráðabirgða í sex ár, á nú tvö ár eftir. Hér er um að ræða reglu sem allir flokkar á þingi á sínum tíma sammæltust um að bregðast við vegna aðstæðna eftir bankahrun og efnahagskreppu. Sumir hafa kosið að kalla þetta ákveðinn siðvanda en allir voru sammála í þinginu á þeim tíma að við yrðum að bregðast við þeirri stöðu sem uppi var.

Mér finnst mikilvægt að hnykkja sérstaklega á því að ákvæðið mun líða undir lok eftir tvö ár og geri ég ekki tillögu að framlengingu þess enda hefur aðlögunartíminn verið nokkur. Með frumvarpinu er lagt til að leggja af tvískiptingu veiðigjalda í almennt og sérstakt gjald, en í staðinn verði tekið upp eitt veiðigjald. Um leið er tryggt með frumvarpinu að um tiltekið lágmark, eins konar gólf verði að ræða, þ.e. að gjaldið verði aldrei lægra en nemur 5,5 kr. á svonefnt afkomuígildi þorsks eða á hvert kílógramm landaðs óslægðs afla í þorski. Með því er gert ráð fyrir að gjaldið verði aldrei lægra en um það bil 4 milljarðar kr.

Í því felst að hugmyndinni að baki almenna veiðigjaldinu er viðhaldið, þ.e. að um tiltekið lágmark verði alltaf að ræða en álagningin einfölduð með álagningu eins gjalds. Það eru því tvö skref sem löggjafinn þarf að fara í gegnum til að geta ákvarðað og geta mælt fyrir álagningu veiðigjalda. Annars vegar er ákvörðun heildarfjárhæðar gjaldsins sem ég hef nú fjallað um. Hins vegar er ákvörðun um hvernig gjaldinu verði jafnað niður á ólíkar tegundir veiða eða öllu heldur ólíkar tegundir fiskstofna. Það er afar mikilvægt að það sé gert með svo sanngjörnum og eðlilegum hætti og kostur er til að tryggja að niðurjöfnunin komi ekki of hart niður á einstaka aðilum.

Veiðigjaldsnefnd sem starfar samkvæmt heimild í lögum um veiðigjöld og er stjórnvöldum til ráðgjafar hefur unnið lengi að því markmiði að þróa leiðir til að tryggja eftir því sem framast er kostur að niðurjöfnun veiðigjaldanna sé reist á sanngjörnum mælikvarða. Það hefur nefndin gert með því að þróa í samstarfi við ráðuneytið reglur um svonefnd afkomuígildi hvers nytjastofns sem lagt er til með frumvarpinu að verði ákvarðaðar tímanlega fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs til að gilda við niðurjöfnun gjaldanna á komandi fiskveiðiári. Með frumvarpinu mun hver fiskstofn fá sérstakt afkomuígildi sem er hlutfall kostnaðar við veiðiúthald á hverju kílói úr stofninum í hlutfalli við kostnað við veiðiúthald á hverju þorskkílói. Í skýringum með frumvarpinu er gefið yfirlit um afkomustuðla helstu fisktegunda og vísast til þess til nánari útskýringar. Þar er einnig rakið að megintilgangur afkomuígildanna sé að leiða fram reiknaða afkomu við veiðiúthald einstakra nytjastofna. Aðferðin byggist á samkeyrslu tiltekinna gagna um tekjur og gjöld. Tekjur eru reiknaðar eftir fisktegundum samkvæmt skráðu aflaverðmæti þeirra. Frá tekjunum er dreginn annars vegar launakostnaður vegna áhafna, en hann reiknast sem tiltekið hlutfall aflaverðmætis, og hins vegar þröngt skilgreindur breytilegur úthaldskostnaður, þ.e. kostnaður vegna olíu, viðhalds fiskiskipa, veiðarfæra, frystingar og umbúða um borð í skipum vegna flutnings- og löndunarkostnaðar. Kostnaðinum er jafnað niður á fisktegundir í samræmi við hlutfall aflaverðmætis við löndun í lok hverrar veiðiferðar.

Hér er alls ekki um að ræða útreikning á hefðbundinni framlegð, hvað þá á hagnaði. En með því að hafa kostnaðinn svo þröngt skilgreindan er horft til þess að hann spegli eins og hægt er mismunandi úthaldskostnað við veiðar á einstökum nytjastofnum og þess að einfalda framkvæmd útreikninga eins og kostur er. Til að ákveða reiknaða framlegð við veiðiúthald einstakra nytjastofna þarf að styðjast við gögn frá Fiskistofu, annars vegar gögn úr afladagbókum um úthaldsdaga og hins vegar gögn um landaðan afla og verðmæti afla í hverri veiðiferð.

Þá þarf jafnframt að kalla eftir gögnum frá útgerðum fiskiskipa og er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að gagnanna verði aflað samhliða skattframtölum útgerðarfyrirtækja. Það mun þó ekki gerast fyrr en á þriðja og síðasta fiskveiðiárinu sem lög þessi munu gilda um þar sem þróa þarf og sækja gögnin með réttum hætti eins og mælt er fyrir um í frumvarpinu. Í stað þessa verður að sækja upplýsingar um fyrri tvö fiskveiðiárin úr greindri skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu. Það er óneitanlega óheppilegt að gögnin sem höfð eru til viðmiðunar við ákvörðun gjaldsins þessi tvö ár séu ekki nýrri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég legg því ríka áherslu um gagnaskil sem hér er mælt fyrir um nái fram að ganga. Að gildistíma frumvarpsins liðnum eiga því að vera komin nýrri og nákvæmari gögn til að ákvarða álagningu veiðigjalda til framtíðar.

Ein veigamesta breytingin sem frumvarpið hefur að geyma er um að sérstakt viðbótargjald verði lagt á veiðigjald fyrir makríl sem nemi 10 kr. á hvert kíló. Sú tillaga er nátengd tillögu frumvarps sem Alþingi hefur til meðferðar um útgáfu leyfilegs heildarafla í makríl svo og skiptingu hans í aflahlutdeildir sem ákveðnar verða með sérstökum hætti og lúta að tilteknum tímaviðmiðum og við höfum nýlokið 1. umr. um.

Í skýringum með frumvarpinu er rakið að viðbótargjaldið geti numið um 1,5 milljörðum árið 2015 sem kemur til viðbótar við veiðigjald samkvæmt frumvarpinu. Álagsgjaldið er vegna úthlutunar aflahlutdeildanna til þeirra aðila sem öðlast með hlutdeildarsetningu makríls rétt til afnota af þeirri hlutdeild. Um rök fyrir gjaldinu og vinnu við mótun þess vísa ég til umfjöllunar um frumvarp um hlutdeildarsetningu makrílstofnsins, sem er þingmál 691.

Önnur veigamikil tillaga er að tekin verði upp staðgreiðsla veiðigjalds, en í því felst að veiðigjald verði lagt á mánaðarlega og að gjalddagi verði fyrsta hvers mánaðar vegna veiða þar síðasta mánaðar. Sem dæmi má nefna að gjalddaginn yrði 1. mars vegna veiða í janúar. Með því er leitast við að tryggja eftir því sem kostur er að veiðigjald sé lagt á sem næst rauntíma og sem næst þeim tíma þegar tekjur vegna sölu á afla falla til. Með því er reynt við að bregðast við gagnrýni sem beinst hefur að álagningu og innheimtu veiðigjalda samkvæmt gildandi lögum. Af þessari breyttu tilhögun leiðir að gera verður nokkrar tæknilegar breytingar á fyrirmælum laganna varðandi svonefnt frítekjumark og um lækkun veiðigjalds vegna kvótakaupa, eins og ég hef áður vikið að í máli mínu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er kveðið á um að lög um veiðigjöld verði tekin til endurskoðunar. Að auki er þar lýst vilja til að efla sátt um framtíðarskipulag sjávarútvegs með því að vinna áfram með tillögu svonefndrar sáttanefndar um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Ljóst er að sú vinna sem ráðist hefur verið í á kjörtímabili ríkisstjórnar í ráðuneyti mínu við að fylgja eftir þessu markmiði mun ekki leiða til breytinga á lögum að sinni. Það hefur þýðingu þar sem gert hafði verið ráð fyrir því við undirbúning þingmála að taka endurgjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni yrði mikilvægur þáttur samninga um aflahlutdeildir. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru engu að síður hugsaðar til þess að tryggja fyrirsjáanleika, ekki síst vegna tímabindingar gjaldtökunnar til þriggja ára. Það er von mín að frumvarpið, verði það að lögum, geti orðið skref í átt til betri og fyrirsjáanlegri löggjafar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

Í fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um það. Að öðru leyti vísa ég til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um það og gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.