144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Vægi veiðigjalda hjá meðalstórum útgerðum, vægi afsláttarins, er mjög lítið. Hv. þingmaður verður að hafa í huga að veiðigjöldin mundu í dag væntanlega nema dálítið á þriðja tug milljarða kr. og gefur augaleið að það kæmi niður á öllum.

Það er ekki auðvelt að rýna í svar hv. þingmanns þegar kemur að umræðunni um arðgreiðslurnar. Helst má skilja hana þannig að hún kjósi að öll útgerð í landinu verði ríkisrekin, það sé ekki eðlilegt að fyrirtæki greiði hluthöfum sínum arð, hvort sem er almenningur eða hverjir það eru, það er auðvitað alltaf almenningur eða lífeyrissjóðir sem fjárfesta í fyrirtækjunum, fyrr en tekin hefur verið ákveðin prósenta, og jafnvel mjög rík prósenta, af fyrirtækjunum. Hv. þingmaður talaði um að eðlileg ávöxtunarkrafa væri 3,5–10%, sem væri í umræðunni.

Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segir að þær arðgreiðslur sem Grandi greiddi núna (Forseti hringir.) til hluthafa sinna, mörg þúsund Íslendinga úr lífeyrissjóði og annarra, hafi numið um 3,5% (Forseti hringir.) af verðmæti hlutabréfanna, þ.e. ef maður keypti sér hlutabréf fyrir milljón væri ávöxtunin 3,5%. Hvar liggja þá sársaukamörkin? (Forseti hringir.) Hvar liggur hvati almennings, lífeyrissjóða og annarra til að fjárfesta (Forseti hringir.) í atvinnulífinu þegar ávöxtunin á fjármunum þeirra er ekki meiri en þetta? (Forseti hringir.) Það er auðvitað sá meðalvegur sem við erum að reyna að rata. (Forseti hringir.) Við verðum að hafa í huga þegar talað er um arðgreiðslur (Forseti hringir.) að það er ekki einhver einföld og hrá upphæð heldur ávöxtun á það fé sem fólk hefur lagt í fyrirtækið.