144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

staða kjaramála.

[15:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi það sem hæstv. ráðherra segir endurtekið að verkföllin séu þannig framkvæmd að fámennir hópar beiti sér þá stendur það kannski til bóta, ef hæstv. ráðherra vill líta svo á, ef 10 þús. starfsmenn Starfsgreinasambandsins samþykkja verkfall núna í kvöld. Ríkið hefur nefnilega ekki bara staðið á hliðarlínunni. Það hefur með einhliða aðgerðum greinilega gert ástandið erfiðara. Ríkisstjórnin getur ekki keypt sér fjarvistarsönnun frá því að hún á hlut að því að það sem var reynt að gera með hófsömum samningum í fyrra, sem aðfararsamning að lengri samningi, hefur algerlega farið í vaskinn. Hvað lagði ríkisstjórnin að mörkum frá og með samningum í janúar/febrúar í fyrra og þangað til núna, til að reyna að leggja áfram með aðilum grunn að slíku? Ekki neitt. Auðvitað gæti ríkisstjórnin reynt að losa upp stöðuna með því að bjóða eitthvað fram, t.d. ráðstafanir í millifærslukerfunum eða skattkerfinu, sem kæmu sérstaklega lágtekjufólki til bóta. Það verður einhver að sýna frumkvæði þegar staðan er (Forseti hringir.) frosin föst eins og hún er og það er ekkert með ríkisstjórn að gera sem situr á höndunum á sér við svona aðstæður.