144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

framkvæmd upplýsingalaga og upplýsingastefnu.

532. mál
[15:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Mig langaði að ítreka fyrirspurn sem ég var með í sérstökum umræðum um stöðu á upplýsingastefnu og upplýsingalögum. Árið 2012 tóku ný upplýsingalög gildi. Lögin eiga að stuðla að styrkingu á mikilvægum undirstöðum heilbrigðis í nútímasamfélagi og ná fram háleitum markmiðum í anda þess lærdóms sem margir staðfastlega vildu draga af hruninu, en lögin eiga meðal annars að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu í þeim tilgangi að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi og auka möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi til að taka upplýstar ákvarðanir. Lögin eiga að tryggja aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum. Þau eiga jafnframt að tryggja möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og auka traust almennings á stjórnsýslunni.

Þrátt fyrir ýmsar umbætur til hins betra í nýju upplýsingalögunum eru einnig gallar á þeim. Í 13. gr. þeirra segir að stjórnvöld skuli veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með rafrænni útgáfu skýrslna og samantektum um mikilvæg verkefni. Þá skulu stjórnvöld vinna markvisst að því að gera gögn, gagnaskrár og málalista aðgengileg almenningi með rafrænum hætti. Því miður er orðalagið loðið og veikt í þessum lögum, en þess ber að geta að þegar frumvarp til nýrra upplýsingalaga var fyrst lagt fyrir Alþingi á síðasta kjörtímabili var það verra en lögin sem fyrir voru. Þingmönnum tókst að laga það að einhverju marki en þó ekki nægilega vel.

Því langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra sem um þetta málefni heldur: Hvers konar upplýsingarétt skapar þetta? Af hverju eru stjórnvöld ekki skyldug til að opna gögn sín og málalista? Finnst forsætisráðherra réttlætanlegt að slíkar undanþágur séu til staðar varðandi opinbera stjórnsýslu?

Mig langar jafnframt að vekja athygli hæstv. forsætisráðherra á því að í ákvæðinu kemur fram að umræddur ráðherra skuli veita Alþingi reglulega skýrslu um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um hvað áunnist hafi varðandi aukið aðgengi almennings að upplýsingum.

Samkvæmt þingmálaskrá fyrir 144. þing stóð til að hæstv. forsætisráðherra flytti Alþingi téða skýrslu nú á vorþingi. Hins vegar segir í endurskoðaðri þingmálaskrá að ekki verði af því á þessu þingi. Það er að mínu mati ekki nægilega gott nema því fylgi einhver skýring. Vil ég því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvers vegna hann hafi ekki gefið Alþingi skýrslu um framkvæmd upplýsingalaga í samræmi við 3. mgr. 13. gr. laganna og hins vegar hvort hann hyggist gefa umrædda skýrslu.

Samkvæmt fyrrgreindri 13. gr. upplýsingalaga skal ráðherra einnig hafa forgöngu um mörkun upplýsingastefnu til fimm ára í senn sem unnin skal í samráði við almenning, Blaðamannafélag Íslands, háskólasamfélagið og fleiri. Í stefnunni skal meðal annars haft að leiðarljósi að mæta þörfum lýðræðislegs samfélags fyrir vandaðar og áreiðanlegar upplýsingar. Í ljósi þessarar lagaskyldu vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort umrædd upplýsingastefna hafi verið mörkuð.