144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

nýtt vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði.

623. mál
[16:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og forseti hefur kynnt er ég hér með fyrirspurn um Holtavörðuheiði. Ég sé að ég hef gleymt sjálfri fyrirspurninni hjá mér en það má eiginlega syngja eins og Stuðmenn, þó að þeir hafi sungið á vesturleiðinni, ég er á háheiðinni og á norðurleiðinni þótt ég segi nú ekki að ég sé á 110 og megi ekki verða of seinn.

Fyrirspurn mín snýr án gamans að Holtavörðuheiðinni og því ástandi sem þar hefur verið, ekki bara á þessum vetri heldur oft undanfarna vetur, vegna breyttra veðuraðstæðna. Holtavörðuheiðin hefur lokast nokkrum sinnum í vetur í átta klukkustundir og jafnvel lengur, en ég minni á að hún er mjög erfið yfirferðar og mjög blind þegar veður eru válynd þannig að oft er hún ekki lokuð en stórhættulegt að fara um hana vegna blindu.

Núverandi vegur var lagður fyrir um 30 árum og þá var tekið dálítið mikið tillit til þess að hafa veginn yfir háheiðina til að mikill vindur feykti snjó af vegi og skafrenningur og éljagangur mundi ekki tefja för. Heiðin er í 407 metra hæð þar sem hún er hæst og hefur eins og ég segi verið erfiður farartálmi undanfarna vetur og líka sérstaklega erfið vegna þess að veður hafa mikið breyst.

Þess vegna lagði ég fram þessa fyrirspurn eftir einn slæman kafla í vetur þar sem allt var lokað og rifjaði upp gömul gögn sem mikill eldhugi, verkstjóri Vegagerðarinnar á Hvammstanga, sendi mér um þetta mál þegar ég var samgönguráðherra. Þar gat að líta hugmyndir hans og annarra hjá Vegagerðinni, eins og umdæmisstjórans á norðvestursvæðinu, að nýju vegstæði á 10 kílómetra leið sem mundi lækka veginn um 50–80 metra, þ.e. að þegar komið er upp svonefnda Biskupsbrekku við upphaf Holtavörðuheiðarinnar Borgarfjarðarmegin mundi vegurinn liggja til vesturs um Dalahvilft til norðurs við Holtavörðuheiðina í kringum 300 metra hæð.

Þess vegna set ég fram þessar spurningar sem eru fjórar talsins og hljóða svo, með leyfi forseta:

1. Hvaða athuganir hefur Vegagerðin látið gera á nýju vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði?

2. Hversu miklu neðar, í metrum talið, gæti nýtt vegstæði legið?

3. Hver er hugsanlegur kostnaður við slíka framkvæmd?

4. Kemur til greina af hálfu ráðherra að veita fé til slíkrar framkvæmdar í næstu fjögurra ára samgönguáætlun?