144. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2015.

nýtt vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði.

623. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún veitti mér og þinginu við þessari spurningu um há-Holtavörðuheiðina og hugsanlega nýtt vegstæði þar, sömuleiðis hv. þm. Róberti Marshall fyrir innlegg hans um aðra vegi sem við þurfum að ræða um.

Ég hef alltaf vitað að Vegagerðin sem stofnun vinnur mjög faglega og oft og tíðum langt fram í tímann. Það heyrist mér vera gert hér því að árin 2006–2007 var farið að skoða nýja veglínu og unnin frumdrög og gróf kostnaðaráætlun, eins og hæstv. ráðherra getur hér um, á 7,5 kílómetra kafla sem kostar 850–950 millj. kr. og lækkun um 50–60 metra eins og hér hefur komið fram og er svipuð tala og ég var með áðan.

Jafnframt kom fram að Vegagerðin væri að skoða aðra línu en þessa sem ég er ekki alveg viss um hvernig er og get ekki tjáð mig um hér.

Eins og ég segi þakka ég fyrir þetta svar en vil jafnframt geta þess að Holtavörðuheiðin er tengingin milli Norðurlands og höfuðborgarsvæðisins og ákaflega fjölfarin leið, margir einstaklingar og miklir flutningar fara um hana og þess vegna er mér til efs að nokkurt verkefni gæti skilað jafn mikilli arðsemi og þarna, ekki bara hvað varðar það að vegurinn verður opinn oftar heldur er þetta kannski að stærstum hluta til umferðaröryggismál, þ.e. ef Vegagerðin kemst að þeirri niðurstöðu að akstur í blindbyl og skafrenningi á þessari leið þar sem lítið sést fram fyrir rúðuþurrkurnar á bílum gæti orðið öruggari held ég að það sé alveg einnar messu virði að skoða málið frekar.

Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að beita sér fyrir því, ekki núna í fjögurra ára áætlun heldur í 12 ára (Forseti hringir.) áætlun sem mér skilst að eigi að koma í haust, að leggja til fé inn á rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar þannig að Vegagerðin geti farið í meiri og betri athugun og kortlagningu á þessum möguleika (Forseti hringir.) þar þannig að það megi áætla fyrir því fljótlega eftir að þeirri vinnu lýkur.

Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir svörin.