144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef hugsað mér að gera að umtalsefni Reykjavíkurflugvöll, miðstöð innanlandsflugs á Íslandi, og þær framkvæmdir sem eru hafnar á Valssvæðinu, því miður vil ég segja vegna þess að mér finnst það aðför að hálfgerðu friðarsamkomulagi sem gert var um að allir mundu halda í við sig meðan svokölluð Rögnunefnd væri að vinna. Allir flokkar eiga sína sögu í þessu máli og innan allra flokka eru deildar meiningar um hvar innanlandsflug eigi að vera. Þannig verður það áfram. Þetta er ekki pólitískt mál hvað það varðar. Ég sagði að allir flokkar ættu sína sögu. Þess vegna langar mig aðeins að fara yfir þessa sögu til að koma því í umræðu og að menn hafi allt á hreinu.

Í meirihlutatíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna var deiliskipulag fyrir Valssvæðið, Hlíðarendasvæðið, samþykkt 2006/2007. Í tíð Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur sem borgarstjóra var undirritað samkomulag þar sem talað var um samgöngumiðstöð sunnan við Loftleiðahótelið þar sem endinn á svokallaðri neyðarbraut er. Jafnframt skyldi fara í flugtæknilega, rekstrarlega og skipulagslega úttekt þar sem hægt væri að meta lágmarksstærð flugbrauta og athafnasvæðis með tilliti til þess að völlurinn ætti að þjóna áfram sem miðstöð innanlandsflugs.

Í þriðja lagi var í borgarstjóratíð Ólafs Magnússonar, þegar hann starfaði með Sjálfstæðisflokknum, 20. ágúst 2008 undirritað samkomulag við Knattspyrnufélagið Val og Val ehf., held ég að það heiti, um nýtingu á Hlíðarendasvæðinu. Síðan er rétt að hafa líka í huga að 25. október 2013 undirrituðu þáverandi innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir og Jón Gunnarsson tilkynningu um lokun þessarar brautar.

Virðulegu forseti. Með því að fara (Forseti hringir.) svona yfir þetta sjáum við að það eiga allir sína sögu. Það sem ég ætla að segja í lokin er að ég harma það mjög (Forseti hringir.) að ríkisvaldið sem er eigandi að helmingnum að landinu þar sem Reykjavíkurflugvöllur er skuli ekki hafa kannað það að setja lögbann á þá framkvæmd sem hafin er þar meðan Rögnunefndin er að störfum.