144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ræða eitt mál en get ekki orða bundist eftir að hafa hlustað á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ræða um kjaramál. Ég er bara búinn að vera í þessu síðan 1998 og það hefur verið samstaða um það vegna þess að menn vilja sjá lausnir (Gripið fram í: Er það?) — það hefur alla jafna verið samstaða um það, sama hvorum megin borðs menn eru, vinstri eða hægri menn í stjórn, að menn ganga ekki fram og taka kjaraviðræður inn í sali Alþingis eða borgarstjórnar svo dæmi séu tekin. Geta ýmsir aðilar hér vitnað um það. Eitt er alveg öruggt, við munum ekki leysa kjaraviðræður í þessum sal. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að við berum gæfu til þess að styðja við bakið á því fólki sem er að vinna að þessum málum því að mikið er undir.

Ég vildi vekja athygli því að dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson birtir grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann fer yfir stórmál, það hvað tap þrotabúanna og íslenska ríkisins hefur verið eftir framgöngu erlendra þjóða í kjölfar bankahrunsins. Hann nefndi Glitnir Bank og Glitnir Securities. Glitnir Bank var seldur á 300 milljónir norskra króna og þrem mánuðum seinna var verðmætið orðið 2 milljarðar. Glitnir Securities fór úr 50 milljónum norskra króna í 100 milljónir á einni viku. Einnig er vísað í Glitnisbankann í Finnlandi og sömuleiðis Heritable Bank og Kaupthing Singer & Friedlander sem voru ekki gjaldþrota og ekkert ólöglegt var þar á ferðinni eins og bresk yfirvöld sögðu á þeim tíma. Tap þrotabúanna er 210 milljarðar íslenskra króna, en hugsanlegt tap (Forseti hringir.) okkar, skattgreiðenda, er 60 milljarðar út af FIH-bankanum.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki allt með fyrirvara en við verðum að skoða þetta vel. Hér undir eru gríðarlegir hagsmunir.