144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Af og til sprettur upp umræða um laun og kjör þingmanna og þá styrki sem við eigum rétt á. Það er greinilega áhugi á þessum upplýsingum, áhugi hjá fjölmiðlum fyrir því að grafast fyrir um málið. Við könnumst eflaust við að hafa fengið fyrirspurnir frá fjölmiðlum um hvort við höfum eitthvað á móti því að upplýsa um kaup og kjör.

Fyrir nokkrum árum kom upp mikið hneykslismál í Bretlandi. Þá kom í ljós að þingmenn gátu, að því er virtist óáreitt, vaðið í opinbera sjóði og úr þessu varð skandall. Í framhaldinu var sett á fót stofnun undir breska þinginu sem heitir Independent Parliamentary Standards Authority. Þessi stofnun hefur meðal annars það hlutverk að upplýsa um laun og í raun allan starfskostnað sem þingmenn fá greiddan og eiga rétt á.

Mér hefur fundist þetta mjög spennandi, hef verið að skoða þetta og er eiginlega búin að móta mér skoðun. Við erum hér að berjast um traust, við alþingismenn. Við erum kosin af þjóðinni og síðan kemur í ljós að kjósendur okkar bera ekki mikið traust til þeirrar stofnunar sem við störfum hjá. Það er ekki vegna starfsfólks á Alþingi, það snýr að okkur alþingismönnum. Það getur svo sem enginn breytt þessu nema við sjálf. Ég velti fyrir mér hvort við ættum ekki að fara að dæmi Breta. Við þurfum ekkert að setja á fót sérstaka stofnun, en hvort við ættum ekki að tryggja að allar upplýsingar sem til falla vegna starfa okkar í þágu Alþingis séu uppi á borðum. Það er ekki eins og við höfum eitthvað að fela hér, en staðreyndin er sú að skortur á gagnsæi og óskýrleiki á þessu sviði er til þess fallinn að vekja upp spurningar og hvort sem þær eru á rökum reistar eða ekki þá grafa þær undan trausti.

Ég (Forseti hringir.) mælist til þess að við göngum á undan með góðu fordæmi, upplýsum um þetta, við höfum ekkert að fela, og aukum um leið traustið á þessari stofnun.