144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi ekki vilja gera of mikið úr því að þetta væri á margan hátt sérstakt mál því að það byggir að öllu leyti á sambærilegum lögum í öðrum löndum, lögum sem í mörgum tilvikum hafa verið í gildi eins og ég gat um áðan um áratugaskeið og reynst vel þar, svoleiðis að hér er um það að ræða að verið er að færa Ísland á sama stað hvað þennan málaflokk varðar og önnur lönd hafa verið um áratugaskeið. En að mörgu leyti höfum við ekki hugað nógu vel að þessum málaflokki oft á tíðum á Íslandi. En hér er dálítil tilraun til að bæta þar úr.

Hvað varðar spurninguna um þá hverfisvernd sem nú er til staðar þá hefur hún ekki allt of oft náð að skila tilætluðum árangri, þ.e. það hefur ekki reynst nógu mikið hald í henni, enda getur þrýstingurinn á framkvæmdir oft á tíðum orðið býsna mikill, ég tala nú ekki um þegar fasteignaverð hefur þróast á þann hátt sem það er að gera til að mynda núna. Þá skapast oft mjög mikill þrýstingur á að horfið verði frá hverfisvernd á ákveðnum stöðum. Það hefur allt of oft verið látið undan slíku og það haft í för með sér ýmist verulegan hagnað fyrir þá sem hafa fengið að fara gegn hverfisverndinni sem lagt var upp með og um leið valdið talsverðu tjóni fyrir þá sem fylgdu þeim línum sem lagt var upp með í hverfisverndinni. Með þessu er verið að veita aukinn trúverðugleika, þ.e. menn fá meiri vissu fyrir því að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin eru.

Þá að síðustu spurningunni um hvort þörf sé á að endurmeta þetta allt á fjögurra ára fresti. Það stafar einfaldlega af því að þessu var skeytt saman við aðrar skyldur sveitarfélaga til að endurmeta skipulag á fjögurra ára fresti að loknum sveitarstjórnarkosningum, (Forseti hringir.) og mér skilst að með því sé verið að bregðast við ábendingum sveitarfélaga.