144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef núna nefnt alloft, að ég tel að þeim mun meiri sem möguleikar almennings, íbúanna sjálfra, eru á að hafa frumkvæði í þessum málum þeim mun betra sé það fyrir málið.

Svo af því hv. þingmaður hafði áhyggjur af áhrifunum á hverfisverndina er rétt að taka fram að hér er einungis um að ræða að burt falli sá hluti hverfisverndarinnar þar sem fjallar um eldri byggð. Með því er ætlunin ekki að draga úr möguleikunum á að hverfisvernd eða að önnur úrræði nýtist til þess að vernda náttúrulegt umhverfi í þéttbýli. Ég tek heils hugar undir athugasemdir hv. þingmanns um að það er líka mjög mikilvægt að vernda hið náttúrulega umhverfi og samspil þess við byggðina í kring og reyna að ganga þannig frá málum að það samspil virki sem best.