144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:37]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir þetta með hæstv. forsætisráðherra. Þetta er alþekkt vandamál um allt land, alþekkt vandamál. Spurningin er hins vegar: Er hægt með valdi að þvinga menn til að gera upp hús sín? Er hægt að gera það með valdi? Ég er ekki viss um að þetta frumvarp mæti þeim vanda sérstaklega. Þótt hverfisvernd verði komið á við nokkrar gamlar götur í miðbænum er ég ekki viss um að það mundi knýja menn til að gera upp hús sín. Frumvarpið kveður ekkert á um að það þurfi að gera upp eða viðhalda þessum húsum.

Vandinn er í raun sá að menn hafa ekki séð sér hag í því í upphafi að standa vörð um útlit eða menningarminjar sinnar eigin eignar. Menn hafa ekki séð sér neinn hag í því, sem er auðvitað grátlegt, vegna þess að það er fátt sem heldur uppi fasteignaverði og verðmæti eigna og þessar eigur eru oft einu eigur einstaklinganna í landinu, það er nú húskofinn sem fólk býr í. Þess vegna er það grátlegt að menn skuli ekki hafa séð sér hag í því að viðhalda fasteignum sínum og útliti þeirri eftir atvikum í þeim hverfum þar sem samræmt útlit er.

Það er þess vegna sem ég nefni hér að menn mega ekki gleyma því að það er ekki síður mikilvægt að horfa til framtíðar og vekja fólk sem er að byggja, bæði arkitekta, fasteignasala sem fá úthlutað einhverju svæði, til vitundar um að huga þarf að þessu til framtíðar, að skilgreina fasteignirnar, eða svæðið sitt, á þann veg að þar verði ekki opnuð verslun af tilteknu tagi eða huga að samræmdu útliti til framtíðar. Það er erfiðara að líta til baka og snúa (Forseti hringir.) við. Það verður ekki gert nema með almennri vitundarvakningu. Það (Forseti hringir.) er kannski það sem þetta frumvarp hefur með sér að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál.