144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Samspil við aðra lagabálka í þessu held ég að verði stórfurðulegt. Ég get ímyndað mér það. Vernd bæjar- eða borgarhluta hlýtur að vera skipulagsmál, það er grundvallaratriði í skipulagsmálum, til að mynda er Reykjavík að nálgast miðborgina innan Hringbrautar og þar er stefnan að vernda og reyna að varðveita borgarmyndina. Það kemur síðan öllum öðrum ákvörðunum við innan þess borgarhluta hvar hjólreiðastígar verða, hvernig brunahanar líta út og þar fram eftir götunum. Það að taka þennan grundvallarþátt, verndunina, út úr þessu hlýtur að skapa ótrúlega margar flækjur. Spurt er um réttarstöðu, hver er réttarstaða borgarinnar til dæmis í miðborginni ef hún hefur ekki valdið til að vernda? Hvað á hún þá að segja við þá sem vilja framkvæma? Vald hennar til að vernda byggðina er ekki til staðar, það er ráðherra sem fer með það og hann dregur kannski lappirnar eða hefur ekki áhuga á því og ég tala nú ekki um ef hann á alltaf að vera að meta þetta á fjögurra ára fresti, eftir hverjar einustu kosningar, þá er náttúrlega ótrúlegur hringlandaháttur í þessu. Hver er réttur borgarinnar til þess að koma í veg fyrir að stórslys gerist?

Svo er það hitt. Í frumvarpinu er ekkert kveðið á um það hver réttur einstaklinganna er, eigenda húsanna, gagnvart þessari ákvörðun á fjögurra ára fresti. (Forseti hringir.) Eiga þeir sífellt að vera í biðstöðu með fyrirætlanir sínar, eftir því hver (Forseti hringir.) er ráðherra hverju sinni?