144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[17:17]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Frú forseti. Ég deili með öðrum þingmönnum sem hafa tjáð sig í dag miklum áhuga á húsafriðun, minjavernd og skipulagsmálum yfir höfuð og langar aðeins til að ræða þau mál út frá því frumvarpi sem hér hefur verið mælt fyrir.

Ég deili einnig með mörgum öðrum þingmönnum sem hafa talað á undan áhyggjum af því hvernig frumvarpið kemur inn á tiltölulega nýsamþykkt og mjög góð og bætt skipulagslög sem voru samþykkt í þessum sal þann 9. september 2010, þ.e. skipulagslög nr. 123/2010. Þau lög hafa að mörgu leyti valdið talsverðum straumhvörfum í skipulagsmálum og meðferð skipulagsmála hjá sveitarfélögum og það eru mjög góðar fréttir vegna þess, eins og kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að ýmislegt miður gott hefur gerst í skipulagsmálum á Íslandi í gegnum áratugina. En þótt ýmislegt hafi verið brogað í fortíðinni er ekki endilega þar með sagt að svo sé í dag, ekki endilega þar með sagt að allt sé í kaldakoli. Ég hef áhyggjur af því að við lestur frumvarpsins fær maður þá tilfinningu að aldrei hafi verið tekið á þessum málum fyrr. Mér finnst mjög merkilegt að sjá frumvarp til laga sem kemur mjög mikið inn á skipulagsmál og skipulagsvald þar sem er í raun og veru ekki minnst á skipulagslög nema rétt í framhjáhlaupi þar sem kemur fram að ákveðnar greinar þeirra taki breytingum og 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli falla brott, þ.e. hluti af ákvæðunum um hverfisvernd sem komu ný inn í skipulagslögin 2010 og þóttu vera mikil bót, enda komu þau inn að ósk sveitarfélaganna.

Ég hef eins og fleiri þingmenn hafa minnst á talsverðar áhyggjur af því að hér sé verið að færa vald frá stjórnsýslustiginu sem eru sveitarstjórnir og til ráðherra beint. Stundum fær maður á tilfinninguna og ég tek undir með hv. þingmönnum sem ræddu það í andsvörum rétt á undan að maður sér fleiri dæmi um þetta í frumvörpum og tillögum sem hafa komið fram undanfarið. Það virðist vera tilhneiging til að draga vald til ráðherra, þ.e. auka á miðstýringu. Hvort það er sérstakur valdáhugi sem veldur eða vantraust á þeim sem fara með vald á öðrum stjórnsýslustigum veit ég ekki og ætla mér ekki að geta til um hvort er, en hvort tveggja er mjög ólýðræðislegt og áhyggjuefni.

Í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur einnig falið Minjastofnun Íslands að útbúa tillögu um að tiltekin byggð, sem að mati ráðherra hefur varðveislugildi á landsvísu, verði gerð að verndarsvæði í byggð.“

Hér er í raun og veru búið að bæta við heimildir um að annars vegar að sveitarstjórnir geti komið með tillögur um að vernda svæði og að Minjastofnun geti komið með slíka tillögu og sett sérstaklega eitt ákvæði um að ráðherra geti einn samkvæmt eigin mati lagt til að ákveðin svæði verði varðveitt og getur gert það án hliðsjónar eða án í raun og veru samráðs og án samþykktar hvort sem er sveitarstjórna eða Minjastofnunar. Ég verð að taka undir orð þingmanna á undan að við megum ekki gleyma því að hér á Alþingi setjum við lög burt séð frá því hverjir sitja í ráðherraembættum eða hvaða einstaklingar gegna þeim hverju sinni. Þó svo að svona vald geti farið ágætlega í höndum ráðherra sem hefur sérstakan áhuga og þekkingu á málaflokki er það auðvitað stórhættulegt vald í höndum ráðherra sem hefur ekki áhuga eða þekkingu á málaflokki. Það hvernig endanlegt vald er í raun sett í hendur ráðherra í frumvarpinu getur orðið til mikils skaða þegar kemur að því að vernda svæði og byggð, sé ráðherra andsnúinn slíkri vernd.

Mig langar til að vitna í skipulagslög frá 2010 vegna þess að mér þykja þau mjög góð og ég þekki úr fyrra lífi mínu á vettvangi sveitarstjórnar að þau hafa valdið talsverðum straumhvörfum í því hvernig hægt hefur verið að vinna að skipulagsmálum. Í I. kafla laganna kemur fram um markmið þeirra, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er:

a. að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi,

b. að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,

c. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi,

d. að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana,

e. að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar við gerð skipulagsáætlana varðandi útlit bygginga og form og aðgengi fyrir alla.“

Síðar segir í II. kafla laganna, í 3. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra fer með yfirstjórn skipulagsmála samkvæmt lögum þessum. Ráðherra til aðstoðar er Skipulagsstofnun, sbr. 4. gr.

Ráðherra er fer með málefni varnar- og öryggissvæða fer með yfirstjórn skipulagsmála á varnar- og öryggissvæðum eins og þau eru skilgreind í varnarmálalögum […].“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnir annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Þær fjalla um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmd skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum.“

Með frumvarpinu er verið að kippa hluta af þessari tilhögun, af þessu valdi, af skyldu sveitarstjórnarstigsins, úr sambandi og færa til ráðherra. Það sem meira er, opnað er fyrir að ráðherra sjálfur, hver sem skipar það embætti á hverjum tíma, geti að eigin mati tekið ákvarðanir um þetta. Ég hef af þessu stórkostlegar áhyggjur vegna þess að skipulagsmálin eru réttur og skylda sveitarfélaganna og sjálfsákvörðunarvald og sjálfstæði sveitarstjórna er stjórnarskrárbundið. Sveitarstjórnir eru ekki bara einhverjir aðilar úti í bæ. Sveitarstjórnir eru stjórnsýslustig í stjórnskipan Íslands. Sveitarstjórnarmenn eru ekki einhverjir aðilar úti í bæ sem eru sérstaklega háðir hagsmunaaðilum eða eitthvað ósjálfstæðari í sinni vinnu en til að mynda þeir kjörnu fulltrúar sem sitja á hinu háa Alþingi. Sveitarstjórnarmenn eru fulltrúar almennings. Sumir hverjir hafa fleiri atkvæði á bak við sig en nokkur þingmaður sem hér situr. Mér finnst vera leiðinleg tilhneiging sem sést í þessu frumvarpi og fleiri frumvörpum sem við höfum séð undanfarið þar sem því er gert skóna að sveitarstjórnir séu einhvers konar annars flokks stjórnvald, að sveitarstjórnarstiginu sé ekki beinlínis treystandi fyrir sínum verkefnum. Mér þykir það miður vegna þess að ég held að því fari fjarri.

Mig langar að minnast örlítið á það að í 12. gr. í frumvarpinu koma fram breytingar sem gera á á öðrum lögum og eru sérstaklega þannig lagaðar að þær samræmi tilgang þessa lagafrumvarps við skipulagslög. Meðal annars er gert ráð fyrir því að 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga falli brott þar sem fjallað er um hverfisvernd. Það ákvæði þótti, eins og ég minntist á, mikil bót og kemur sterklega inn í tiltölulega nýsamþykkt aðalskipulag Reykjavíkur fyrir árin 2010–2030 sem samþykkt var í borgarstjórn 26. nóvember 2013. Þar eru í fyrsta skiptið heimildir nýttar til að fjalla um hverfisskipulag og gerð hverfisskipulaga og þær tengdar m.a. hverfavernd miðborgar Reykjavíkur innan Hringbrautar.

Það er sem sé gert ráð fyrir að í 37. gr. falli niður ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, með gerð húsakönnunar. Þegar unnið er að slíku hverfisskipulagi er heimilt að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar eru til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð og varðveislugildi byggðarinnar auk almennra rammaskilmála. Reglur um málsmeðferð deiliskipulags gilda um hverfisskipulag eftir því sem við á.“

Ég get ekki betur séð en að í núgildandi lögum sé í raun og veru heimild til að taka á þeim vanda sem hæstv. forsætisráðherra tiltók að væri einn aðalhvatinn við að leggja fram frumvarpið sem við ræðum hér. Mér þykir dálítið merkilegt að hér sé lagt fram nýtt frumvarp þar sem við getum sagt að andlagið sé að nokkru leyti svipað málsgrein í ríkjandi lögum en í leiðinni er lagt til að sú málsgrein falli á brott. Þó er ekki lagt til að 6. mgr. 12. gr. skipulagslaga falli á brott, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef talin er þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd.“

Þessi málsgrein skipulagslaga stendur. Ég hef áhyggjur ekki bara af því að hér sé um tvíverknað að ræða heldur geti þetta valdið misskilningi og hreinlega unnið hvert á móti öðru.

Ég tek undir með því sem aðrir hv. þingmenn hafa minnst á hérna á undan mér að ég hef sömuleiðis áhyggjur af bótarétti og hvernig skuli farið með bótarétt og kæruheimildir, aðkomu almennings og aðkomu eigenda í þessu samhengi. Ég ætla ekki að bæta miklu við það.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég taka undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem minntist á það í ræðu sinni og andsvörum fyrr í dag að það væri merkilegt að frumvarpi sem hefði svona rík og afdrifarík áhrif á skipulagslög og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga skyldi ætlað að fara fyrir allsherjar- og menntamálanefnd. Vil ég gera formlega tillögu um breytingu þar á og að frumvarpinu verði vísað til umhverfis- og samgöngumálanefndar sem fer með málefni sveitarfélaga og skipulagsmál.