144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[18:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég held að meginmálið sé að horfa á kosti og galla þeirra laga sem við höfum nú þegar og hvernig okkur hefur tekist að virkja almenning og sveitarstjórnir þar. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að aðkoma almennings og sveitarstjórna, ef út í það er farið, sé ekki nógu skýr á ýmsum stigum í náttúruverndinni. Ég held að við þurfum að huga verulega að því sama þegar við erum að tala um minjavernd og verndarsvæði. Það sem ég er að reyna að átta mig á er hvernig við gerum það best í tengslum við skipulagslögin. Þetta eru vissulega tvær leiðir, annars vegar að taka afmörkuð verkefni fyrir í sérstökum lagabálkum sem þurfa þá að spila vel með skipulagslögunum, eins og er verið að gera hér, og þeim spurningum þarf náttúrlega að svara í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar.

Það sem mig langar að spyrja þingmanninn að er hvernig hún sér fyrir sér að almenningur geti haft frumkvæði. Hvaða leiðir hefur almenningur? Er það til sveitarfélaga? Væri það til Minjastofnunar, ef það væri frumkvæði að því að stofna verndarsvæði eða setja samþykkt um verndarsvæði? Og hins vegar: Á hvaða stigum þyrfti almenningur að eiga aðkomu að ferlinu ef frumkvæðið væri annars vegar hjá ráðherra eða hins vegar hjá sveitarstjórn?