144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[18:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það mál sem hér er til umræðu. Fyrst ber að nefna að það er auðvitað bein afleiðing af þeirri sorglegu breytingu sem gerð var við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að breyta fyrirkomulagi Stjórnarráðsins á þann veg að sérstök áhugamál forsætisráðherra væru færð frá öðrum ráðuneytum og felld undir valdsvið hans. Þjóðmenningarmál var þetta skilgreint og hér er meira að segja komið í greinargerð hugtakið „ráðherra þjóðmenningar“ sem er þá væntanlega sérstakur ráðherra, öðruvísi en ráðherra óþjóðlegrar menningar sem situr í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Með þessu er hlutverk forsætisráðherra í stjórnskipuninni breytt í grundvallaratriðum, hann er ekki lengur verkstjóri í ríkisstjórn, heldur ber hann beina ábyrgð og á beinan hlut að ákvörðunum á tilteknu málasviði sem eru jafnvel í samkeppni um fjárveitingar við mál á málasviði annarra ráðherra með sambærileg eða áþekk mál. Með þessu er grautað í grundvallarreglum stjórnskipunarinnar og skekkt það verkstjórnarhlutverk sem forsætisráðherra á að hafa með höndum, því hann á auðvitað að gæta jafnræðis við meðferð allra mála vegna þess að honum er fyrst og fremst ætlað fara með æðstu stjórn ríkisins og samræmingarhlutverk, samkvæmt þeirri meginreglu sem við höfum skapað okkur í meira en 100 ár.

Þetta frumvarp er líka mjög sérstakt að því leyti að ekki er nóg með að hæstv. forsætisráðherra hafi fengið til sín við stjórnarmyndunina þau mál sem eru sérstök áhugamál hans heldur er verið að setja lagaákvæði sem heimila hæstv. forsætisráðherra víðtæk inngrip í almannarétt, í atvinnufrelsi, í eignarrétt einstaklinga og fyrirtækja og í skipulagsvald sveitarfélaga. Það er gert nokkurn veginn án nokkurra efnislegra viðmiða því þegar frumvarpið er lesið verður manni fyrst fyrir og blasir við hversu losaralegar og tætingslegar skilgreiningar er að finna í frumvarpinu og litlar hömlur við beitingu óhefts ráðherravalds. Það má eiginlega segja, þegar maður horfir á málið svona ofan frá séð, að með frumvarpinu standi til að fela hæstv. forsætisráðherra vald til þess að ákvarða sjálfur friðun á einstökum byggðahlutum nokkurn veginn eftir smekk hans, því það eru frekar lítil efnisleg viðmið sett um það. Eina skilgreiningin sem heldur varðandi það hvernig verndarsvæði í byggð eru útfærð er skilgreiningin í 6. lið 3. gr., en þar segir að verndarsvæði í byggð sé afmörkuð byggð með varðveislugildi sem nýtur verndar samkvæmt ákvörðun ráðherra á grundvelli laga þessara. Þannig að ráðherrann býr til skilgreininguna þegar hann er búinn að vernda svæðið. Ef hann kýs að vernda Háaleitishverfið eða bara Háaleitisbrautina eða Grensásveg eða eitthvað annað, er hann þar með búinn að ákveða að það sé verndunarhæft svæði sem uppfylli skilmála laganna.

Um hömlur á hinu óhefta valdi ráðherra að þessu leyti er afar lítið að finna í frumvarpinu. Það er eiginlega ástæða til að fara sérstaklega yfir það. Fyrir það fyrsta segir í greinargerð að æskilegt sé að sveitarfélög sinni því verkefni að friða húsagerðir og hverfisbrag sem ástæða sé til að friða. Allt rétt um það. En í 5. mgr. 7. gr. kemur fram að ráðherra meti samt hvort samþykkt sveitarfélags sé í samræmi við varðveislugildi svæðis og hefur einhliða vald til að synja slíkri samþykkt. Þannig að jafnvel þótt málið hafi farið í gegnum sveitarstjórn, fengið umsögn á vettvangi sveitarstjórnar, hjá íbúum, er það ráðherra sem hefur valdið.

Þá kemur svo að hinu sem er nú enn furðulegra sem er ákvörðunin sjálf um verndarsvæði í byggð. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að sveitarstjórn skuli endurmeta verndarsvæði, í annan stað að sinni þau ekki þeirri skyldu sé hægt að fela Minjastofnun að meta gildi byggðar. Síðan kemur í 4. mgr. þessi ótrúlega furðulega heimild að ráðherra geti einnig falið Minjastofnun Íslands að búa til tillögu um að tiltekin byggð, sem að mati ráðherra hefur varðveislugildi á landsvísu, verði gerð að verndarsvæði í byggð. Það eru engin efnisleg viðmið um það, þessi byggð þarf ekki að uppfylla nein efnisskilyrði samkvæmt einhverri annarri grein, hún þarf bara að hafa að mati ráðherra varðveislugildi á landsvísu. Samkvæmt skilgreiningu í frumvarpinu er varðveislugildi niðurstaða mats á mörgum mismunandi gildum sem áhrif geta haft á varðveislu byggðar, svo sem listrænu gildi, menningarsögulegu gildi, umhverfisgildi og upprunaleika. Þetta er fullkomlega frjálst mat, segir ekkert um vægi einstakra þátta. Ráðherra getur falið Minjastofnun að útbúa tillögu um að tiltekin byggð sem að hans mati hefur varðveislugildi verði gerð að verndarsvæði í byggð. Og hann tekur síðan samkvæmt 5. mgr. 4. gr. ákvörðun um vernd byggðar að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar.

Svo les maður greinargerðina. Þar segir orðrétt í umfjöllun um 4. gr.:

„Í 4. mgr. er að finna heimild til handa ráðherra að taka frumkvæði um varðveislu sögulegrar byggðar sem að mati ráðherra hefur gildi á landsvísu og fela Minjastofnun Íslands að gera tillögu um varðveislu hennar. Þar sem frumkvæðið í slíkum tilvikum kemur frá ráðherra og Minjastofnun Íslands falið að vinna tillögu að verndarsvæði“ — vel að merkja, Minjastofnun þarf hér ekki að vera sammála tillögu ráðherrans — „er mikilvægt að samráð sé haft við viðkomandi sveitarstjórn um þá tillögugerð.“

Svo kemur aðalsetningin um allsherjarvald ráðherrans:

„Þar sem ákvörðunarvald um afmörkun verndarsvæða í byggð er í höndum ráðherra er honum heimilt að taka ákvörðun um slíka vernd, enda þótt Minjastofnun Íslands mæli ekki með slíkri vernd eða taki ekki afstöðu til hennar.“

Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra sem hefur sérstakan áhuga á húsafriðunarmálum getur ákveðið að friða einhver hús eða heil hverfi. Jafnvel þótt Minjastofnun Íslands sé andsnúin því, jafnvel þótt sveitarstjórnin sé andsnúin því, getur ráðherrann samt ákveðið það. Samkvæmt lögunum getur ráðherrann ef honum finnst eitthvert hverfi fallegt, tökum sem dæmi einhver hverfi með heildstæðum stíl, ég nefndi Háaleitishverfið áðan, það er hægt að taka Hvassaleitið eða eitthvað annað, og hafi áhuga á að friða það, þá getur hann bara gert það. Minjastofnun getur ekki gert neitt við því. Henni ber samkvæmt lagafrumvarpinu að leggja fram tillöguna þó hún sé bara bullandi ósammála henni, telji enga ástæðu til að friða. Hún verður að leggja tillöguna fyrir ráðherrann og þá getur hann tekið ákvörðun um friðunina. Ráðherra leggur mat á tillögur sveitarstjórnar eða Minjastofnunar en er ekki bundinn af þeim og getur mælt fyrir um frekari vernd í einstökum atriðum telji hann þær ekki í samræmi við markmið laganna. Og eins og ég hef þegar rakið eru markmið laganna einstaklega óljós.

Hvað varðar mikilvægi þess að samráð sé haft við sveitarfélög þá vitna ég til þess sem segir í greinargerðinni um að samráð hafi verið haft við gerð þessa frumvarps, haldnir voru „nokkrir fundir þar sem fram komu sjónarmið sem leitast hefur verið við að taka mið af“, en það er alveg ljóst að frumvarpið nýtur ekki stuðnings Sambands íslenskra sveitarfélaga, svo dæmi sé tekið.

Hér er því verið með mjög sérkennilegum hætti að ganga mjög langt í að afhenda ráðherra á afskaplega veikum faglegum forsendum gríðarlegt íhlutunarvald um skipulagsmál sveitarfélaga, um atvinnufrelsi og um athafnafrelsi fólks. Ég held að það að lagasetning af þessum toga, svona frumvarp, skuli í sjálfu sér geta farið í gegnum báða stjórnarflokkana hljóti að vekja okkur dálítið til umhugsunar í hvaða átt við erum komin í faglegum vinnubrögðum í opinberri stjórnsýslu. Finnst mönnum það virkilega í lagi að gefa ráðherra óheft vald, algjörlega án nokkurs málefnalegs rökstuðnings, til inngrips í almenn borgararéttindi? Ég hlýt náttúrlega að spyrja: Var þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sofandi þegar þetta var afgreitt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Hvað var að gerast þar? Getur einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins komið hér upp og lýst yfir stuðningi við svona stórfengleg inngrip í einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi án nokkurrar efnislegrar réttlætingar? Ég hlýt að lýsa eftir talsmönnum frjálslyndis, athafnafrelsis og einstaklingsfrelsis innan Sjálfstæðisflokksins, því það er alveg greinilegt að enginn þeirra hefur verið á þingflokksfundinum þegar samþykkt var framlagning þessa frumvarps. Það skortir algjörlega á efnislegar takmarkanir í þessu gríðarlega stjórnlyndisfrumvarpi. Ég held að það þurfi að fara örugglega aftur til Jónasar frá Hriflu, ef ekki lengra, til að finna hliðstæðu við þá hugmynd sem hér er lögð fram um ofurvald ríkisins og óheft ráðherravald gagnvart almenningi í landinu. Það er auðvitað saga til næsta bæjar að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn svo heillum horfinn í þeirri herleiðingu sem Framsóknarflokkurinn hefur tekið hann í að hann hafi algjörlega gleymt að standa vörð um þessi grundvallarréttindi.

Eitt vil ég nefna í lokin sem ég gleymdi, að hvergi nokkurs staðar í þessu frumvarpi um hið óhefta ráðherravald er getið um nokkra kæruleið. Ráðherrann ræður því sjálfur án nokkurra efnislegra takmarkana hvort hann friðar einhver svæði og sveitarstjórn sem þarf að þola slíka valdníðslu ráðherrans hefur engin úrræði samkvæmt lögunum, það er engin úrskurðarnefnd, það fer ekkert faglegt ferli í gang. Þannig að hæstv. forsætisráðherra skammtar sjálfum sér óheft vald til þess að taka einhliða ákvarðanir um friðanir hvaða hverfis sem er í þéttbýli án nokkurra takmarkana. Þótt Minjastofnun sé algjörlega á móti því þá fær hann samt tillögu inn á borð til sín sem hann getur afgreitt samkvæmt þessu og sveitarstjórn, borgarar, íbúar, hafa engin úrræði til að verjast valdníðslunni. Hvergi er kæruleið að finna og engar hömlur á hinu óhefta ráðherravaldi. Þetta eru stjórnarhættirnir sem ríkisstjórninni finnst við hæfi að bjóða okkur upp á hér á 21. öld. Það hlýtur að vera saga til næsta bæjar.