144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[21:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja út af ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að þegar hann talar um að skutla einhverju inn í stjórnarskrána þá held ég að við þekkjum að það skutl getur tekið einhvern tíma.

Ég vil að öðru leyti þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur átt sér stað. Það hafa ýmis sjónarmið komið fram sem ég vona að fái góða og ítarlega umfjöllun í utanríkismálanefnd. Margar ábendingar hafa líka komið fram um einstaka liði sem mætti kannski fókusera öðruvísi á eða eitthvað þess háttar, þannig að mér finnst umræðan hafa verið mjög málefnaleg og góð og fyrir það þakka ég. Ég held að ástæðan fyrir því að hún hafi verið góð sé að undirbúningurinn að þessari þingsályktunartillögu hefur verið mjög góður og langur. Það var vandað til verka hjá formanni nefndarinnar sem fjallar um þetta, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Við fórum í heimsókn til hennar og unnum þetta býsna vel og síðan hafa starfsmenn ráðuneytisins gert mjög vel í því að útfæra þær tillögur í þetta form sem við höfum hér. Ég hlakka til þeirrar umræðu sem mun fylgja í kjölfarið í utanríkismálanefnd og annars staðar.