144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:27]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Kristjáni L. Möller, fyrir þarfa og góða umræðu, mikilvæga umfjöllun sem hófst með þingsályktunartillögu Árna R. Árnasonar á 127. löggjafarþingi 2001, um auknar forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum, og nú þurfum við að láta verkin tala.

Það er löngu vitað að forvarnir í heilbrigðisþjónustunni muni spara verulegar fjárhæðir, eins og kom fram í máli framsögumanns. Það mikilvægasta er þó að forvarnir auka lífsgæði, lengja og gefa mörgum betra líf. Þess vegna er fjármunum sem settir eru í forvarnir vel varið og þeir skila sér til baka í auknum lífsgæðum.

Þriðji til fjórði hver Íslendingur getur átt von á því að greinast með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni að áttræðu. Nýgengi krabbameins í upphafi þessarar aldar mældist um það bil 40% og dánartíðni um 30%. Við höfum því verk að vinna og þessi umræða er gott innlegg til að hefja þá sókn í forvörnum gegn sjúkdómum sem mikilvæg er. Umhverfisþættir eiga stóran þátt í átta til níu af hverjum tíu krabbameinssjúkdómum í mönnum, eins og reykingar, óhófleg áfengisneysla og óhollt mataræði. Við þurfum að taka okkur á.

Virðulegi forseti. Mikilvægasta forvörnin er því sú ábyrgð sem við berum hvert og eitt á eigin lífi. Það mun bæta líf okkar allra og spara þjóðfélaginu mikla fjármuni til allrar framtíðar. Hefjum skimanir og björgum mannslífum.