144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

skimun fyrir krabbameini.

[16:34]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar í seinni ræðu minni um þetta mikilvæga mál aðeins að koma inn á þær forvarnir sem þessi skimun sannarlega er og af hverju við ættum í þessu máli sem öðrum mikilvægum málum að leggja áherslu á forvarnir. Eins og við vitum er alltaf mun ódýrara fyrir samfélagið að grípa fyrr inn í. Snemmtæk íhlutun kostar heilbrigðiskerfið mun minna því að það er ódýrara að eyða í skimun en að taka á móti mjög krabbameinsveikum sjúklingum. Og svo kostar ótímabær dauðdagi einstaklinga, sem við erum að ræða um hér, sem þá deyja af völdum þessa krabbameins, samfélagið mjög mikið. Ekki bara er það auðvitað sár missir heldur verðum við, ef við eigum að horfa praktískt á málin, einfaldlega af skatttekjum, þekkingu og almennum mannauði þess fólks sem lætur lífið vegna ótímabærs dauðdaga. Þetta er allt á sama veg og þetta er eins og maður segir á vondri íslensku algjör „no-brainer“.

Ef ég heyrði rétt eru 50 milljónir eða eitthvað aðeins meira áætlaðar í þessar skimanir á ári. Ég tek undir það hjá þingmanni áðan að við þurfum auðvitað að finna þessu stað í fjárlögum, en ég spyr: Hvaða áætlanir eru uppi um vænt fyrirkomulag ef hæstv. heilbrigðisráðherra er að vinna að málunum? Er frekara samstarf við Krabbameinsfélagið það sem við erum að fara að sjá eða er eitthvert annað fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra er að fara að vinna með?