144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því eins og hæstv. fjármálaráðherra að þessi tillaga er komin fram og að við fáum loksins að taka hér til umræðu ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára eins og staðið hefur til samkvæmt þingsköpum alveg frá 2010/2011. Reyndar voru svona áætlanir lagðar fram á árunum 2009, 2011 og 2012 og voru mjög gagnleg gögn. Ég hef áður gert athugasemdir við að hæstv. fjármálaráðherra hafi í raun rofið þá hefð með framlagningu tveggja síðustu fjárlagafrumvarpa, að þeim fylgdi ekki sjálfstætt rit, sjálfstæð ríkisfjármálaáætlun, þó að auðvitað mætti finna að hluta til hliðstætt efni í greinargerð. Hér er þó komin áætlun í samræmi við ákvæði þingskapa og það er vel.

Að sjálfsögðu er í öðru lagi ástæða til að gleðjast yfir því að staðan hefur snarbatnað í ríkisfjármálum okkar frá því sem verst var enda mátti hún svo sannarlega gera það, frá methallaárinu 2008 þegar halli á ríkissjóði var 14% af vergri landsframleiðslu, 217 milljarðar á þágildandi verðlagi. Ef menn skoða töflur sem finna má meðal annars í þessu riti sést að afkoman batnaði síðan í stórfelldum skrefum milli áranna 2008 og 2009, aftur milli áranna 2010 og 2011, ekki eins mikið, og síðan var aftur stórt skref tekið á milli áranna 2011 og 2012. Þannig lauk því kjörtímabili að á árinu 2013 náðist jákvæður heildarjöfnuður ef litið er fram hjá óreglulegum liðum. Þetta var stórstígur bati, í stórum stökkum, svo nam tugum milljarða á ári. En því miður er hér boðaður hægfara bati. Út af fyrir sig má hrósa mönnum fyrir að þeir eru ekkert að reyna að fela það og þeir orða það á sæmilegri íslensku.

Það sem hér er boðað er hins vegar allt annar halli á kúrfunni, tiltölulega hægfara bati. Hann er svo hægfara að það liggur við að kalla megi hann kyrrstöðu. Það eru vonbrigði. Mér finnst ekki nægur metnaður í þessu hvað það snertir vegna þess að ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um það að ef reynslan hefur kennt okkur eitthvað er að minnsta kosti eitt af því það hversu öguð við verðum að vera í okkar opinberu fjármálum og sennilega vegna smæðar hagkerfisins og þess hversu viðkvæmt það er að ýmsu leyti að hafa meira borð fyrir báru en aðrir, ganga út frá lægri skuldahlutföllum og meiri forða til að mæta ófyrirséðum hlutum.

Ég ætla sömuleiðis að gera fjárfestingar ríkisins lítillega að umtalsefni. Þar er talað um að þær haldist óbreyttar, þ.e. sem nemi um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Hvað þýðir það? Jú, það er reynt að klæða þær í þann búning að það verði nokkurt svigrúm, eins og hér er talað um, til að ráðast í brýn og arðbær verkefni, m.a. vegna þess að þegar öðrum lýkur, eins og byggingu fangelsis á Hólmsheiði eða gerð Norðfjarðarganga, sé eitthvert svigrúm í staðinn. Já, en það er nú ekki mikið. Svigrúmið á þessu ári er að það verður nánast engar nýframkvæmdir hægt að bjóða út í vegamálum. Fjárfestingar í innviðum okkar eru allt of litlar.

Á bls. 5 í kafla um þjóðhagsforsendur er skemmtileg setning. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frá því að hagkerfið tók að vaxa á ný árið 2010 hefur landsframleiðslan aukist um 9,4%.“

Hér er að minnsta kosti viðurkennt, herra forseti, að batinn í hagkerfinu hófst á árinu 2010. Það var ekki alltaf sem hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson tók undir það að hlutirnir væru farnir að þokast í rétta átt, hvað þá svo snemma sem á árinu 2010. Sá sem hér stendur skrifaði greinaflokk í september 2010 sem hét „Landið fer að rísa“ vegna þess að ég þóttist þá sjá óhrekjandi merki þess að hagkerfið hefði snúist við og að bati færi í hönd. Þáverandi hv. þingmaður og stjórnarandstöðuleiðtogi Bjarni Benediktsson gerði mikið grín að þessum greinaflokki og hló sig eiginlega alveg máttlausan yfir því hvað þetta væri vitlaust, það væri þá aldeilis að ástandið væri eitthvað að lagast. Ég þakka honum sem sagt fyrir að staðfesta á prenti í sinni eigin ríkisfjármálaáætlun að ég hafði rétt fyrir mér.

Varðandi fjárfestingarnar og það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom líka inn á er það út af fyrir sig viðurkennt hér, og það er grafalvarlegt mál, að þetta lága opinbera fjárfestingarstig, þær prósentur sem hv. þingmaður nefndi voru reyndar opinbera fjárfestingin í heild, þá að meðtöldum sveitarfélögum, er ekki nóg til að endurnýja og viðhalda þjóðarauðnum í formi innviða og annarra verðmæta. Það gengur á hann og hann rýrnar. Er það ásættanlegt? Fjárfestingarhlutfall ríkisins sem er aðeins 1,2% af vergri landsframleiðslu er ekki nóg. Það er verið að skjóta vandanum inn í framtíðina og safna honum upp og það getur alveg leitt til þess að kostnaðurinn verði enn meiri síðar. Ég tel að þarna vanti mikið upp á að menn hafi stillt hlutina rétt af.

Ég tel að áformin í þessari ríkisfjármálaáætlun séu of naum, sérstaklega hvað varðar svigrúm ríkisins til fjárfestinga og til að gera betur í vissum málaflokkum. Það er vegna þess að tekjuhlið frumvarpsins er til muna veikari en fyrri ríkisfjármálaáætlanir gerðu ráð fyrir og það er ósköp einfalt að ríkið verður vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar af tekjum sem nema verulegum fjárhæðum af tveimur ástæðum, annars vegar vegna beinna skattalækkana. Hér er bara sagt eins og ekkert sé að auðlegðarskattur heyri sögunni til, en það eru 11 milljarðar niður. Veiðigjöldin skila milljörðum minna en þau gerðu áður og gætu gert, breytingar í tekjuskatti varðandi vörugjöld sömuleiðis, að fella niður sykurskatt o.fl. Til samans er þetta að minnsta kosti hátt á þriðja tug milljarða króna. Þótt ekki væri nema að helmingurinn af þessum tekjum eða öðrum í staðinn hefði verið varinn í grunni ríkisfjármálaáætlunarinnar og það yxi síðan með okkur inn í framtíðina hefði verið komið umtalsvert svigrúm til aukinna innviðafjárfestinga, til að greiða hraðar niður skuldir eða hvað það nú væri.

Það sem veikir þetta líka og er hvergi sýnt er að ríkið er að tapa, bæði að taka á sig kostnað sem er ófjármagnaður og tapa umtalsverðum tekjum vegna skuldaniðurfellingaraðgerðar ríkisstjórnarinnar. Það eru stórar fjárhæðir. Það tikkar inn á þessum árum að skatttekjur ríkisins og ýmis kostnaður sem það tekur á sig af þessum sökum veikir tekjugrunninn. Það birtist meðal annars í því að batinn, t.d. á frumjöfnuði ríkissjóðs, er nánast enginn á þessu áætlunartímabili.

Frumjöfnuður ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er sýndur á bls. 19 í töflu um áætlaða afkomu ríkissjóðs til ársins 2019 eða bati frá fyrra ári. Batinn milli 2015 og 2016 er 0,0%. Batinn milli 2016 og 2017 er að vísu 1%, en hann gengur að mestu leyti til baka árið eftir því að þá versnar frumjöfnuður aftur um 0,7% og lagast svo um 0,1% 2019. Frumjöfnuðurinn er sem sagt nánast óbreyttur, er ekki að lagast á öllu þessu tímabili. Það hefði ég kannski getað sætt mig við sem og þennan hægfara bata að öðru leyti í afkomu ríkisins ef hann væri vegna þess að fjárfestingar í innviðum eða betri frammistaða á mikilvægum útgjaldasviðum eins og velferðarmálum væri að aukast, en það er ekki svo og það leiðir til mjög alvarlegrar niðurstöðu. Skoði menn myndina á bls. 18 sjá þeir að samneyslan dregst jafnt og þétt saman og fer niður á eitthvert lægsta stig sem ég spái að hún hafi nokkru sinni verið á í seinni áratuga sögu Íslands ef þetta verður keyrt til enda. Það er einfaldlega verið að draga verulega úr samneyslunni. Það gerist með því að gjöld ríkissjóðs fara úr 29% af vergri landsframleiðslu eins og þau voru í skurðpunktinum 2013 þegar tekjur og gjöld mættust niður í 26% á árinu 2019. Tökum frumgjöldin án óreglulegra liða — hvert verða þau komin árið 2019? Niður í 23,4%. Það skulu menn hugleiða að er mun lægra hlutfall en menn sjá til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum eða í öðrum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við hvað varðar velferð.

Þarna tel ég ekki rétt gefið. Ég tel að þarna séu ástæður sem ég er bæði efnahagslega ósammála, því að ég tel að þetta sé ekki gott fyrir hagkerfið, og líka auðvitað alveg sérstaklega pólitískt ósammála. Þetta er ekki ávísun á neitt annað en niðurskurð og þrengingar í útgjöldum eða rekstri ríkisins og það mun hitta framtíðina fyrir í formi lakari innviða og lélegri þjónustu við (Forseti hringir.) þá sem þurfa stuðningsins við frá ríkinu.