144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Margir spáðu því að hin blandaða leið síðustu ríkisstjórnar og aðgerðir á sviði ríkisfjármála mundu kæfa allan hagvöxt og þýða að hér yrði enginn bati. Meira að segja fólk í mínum eigin flokki hélt þessu fram. En hver varð niðurstaðan? Við náðum tæplega 3% hagvexti á árinu 2011. Þetta var ekki verra en það, þegar einmitt hvað mest tók í og við höfðum verið í harkalegustu aðgerðunum tvö ár í röð á undan að skera niður útgjöld og hækka skatta. Það tókst nefnilega að finna blöndu sem um leið þýddi að hagkerfið gat tekið við sér og vaxið.

Já, ég er að segja að ég teldi að í þessari áætlun þyrfti í raun að vera hvort tveggja, nokkuð meiri afgangur, sérstaklega á síðari hluta tímans, og meiri útgjöld. Það vantar að mínu mati svigrúm inn í þessa áætlun upp á 20–30 milljarða, segjum sem svo, og ég væri alveg sáttur við að skipta því til helminga, í auknar fjárfestingar í innviðum og í meiri afgang til að greiða niður skuldir, borga hraðar inn á framtíðarlífeyrisskuldbindingar eða annað í þeim dúr.

Vissulega eru hagvaxtarhorfur þokkalegar. Við getum þá sagt: Ja, ef þetta gengur eftir ætti ekki að þurfa að hafa sérstakar áhyggjur af því að ríkið þurfi frekar en hitt að reyna að styðja við hagvöxt og beita örvandi aðgerðum. Nei, en þá gerum við aðra hluti með peningana eins og að borga niður skuldir eða borga inn á framtíðarlífeyrisskuldbindingar sem ekki hafa slík áhrif.

Þetta svigrúm væri tiltölulega auðvelt að skapa. Það væri til staðar í aðalatriðum ef tvennt hefði ekki gerst, ef ríkisstjórnin hefði ekki afsalað ríkissjóði þetta miklum tekjum og ef ekki væri búið að taka kostnað og afsala tekjum í þeim mæli sem gert var í skuldaleiðréttingarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Auðvitað geta þær fætt síðan eitthvað af sér í afleiddum áhrifum, betri hag heimilanna. Að sjálfsögðu hefur það góð áhrif. En grófa myndin séð frá sjónarhóli (Forseti hringir.) ríkisfjármálanna er að svigrúmið er þrengra en fyrri ríkisfjármálaáætlanir gerðu ráð fyrir.