144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að í tekjuáætluninni eða þeim hluta þessarar áætlunar sem snýr að tekjunum er áfram gert ráð fyrir bankaskattinum á hluta tímans sem síðan fjarar smám saman út. Það hefur áhrif á tekjulínuna.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert í skattamálum? Menn geta séð í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar hafa samanlagt skilað ríkinu meiri tekjum vegna þess að við afnámum undanþágu fyrir slitabúin frá bankaskattinum. Þar er hægt að segja í stuttu máli um skattaaðgerðir ríkisstjórnarinnar að þetta eru lægri skattar á heimilin, einstaklinga, lægri skattar á atvinnustarfsemina, alla nema fjármálafyrirtæki og slitabú. Niðurstaðan er meiri tekjur til ríkisins. Þannig lokuðum við fjárlagagatinu og þannig gátum við aukið við í mikilvæga innviðafjárfestingu og inn í velferðarmál, svo sem Landspítalann.

Mér finnst hv. þingmaður vera hér að segja að við ættum að hækka skattana aftur. Auðlegðarskatturinn er nefndur til sögunnar en í fyrri ræðu sinni fannst mér hv. þingmaður vera að mæla gegn lækkun vörugjaldanna og gegn tekjuskattsráðstöfunum sem við höfum farið í. Það verður ekki á allt kosið í þessu, annaðhvort fylgja menn þeirri stefnu að halda sköttum háum og leggja það á heimilin og atvinnustarfsemina að standa undir væntingum um aukna afkomu eða ekki. Ég segi bara að ef menn vilja sérstaklega leggja áherslu á lækkun skulda er svo sem hægt að gera það á grundvelli þess að skattar séu hækkaðir á atvinnustarfsemi og heimili, en ef menn skoða reikninginn almennilega er svo augljóst að við erum með stórar eignir sem við skuldsettum okkur fyrir sem við eigum bara að selja aftur og borga viðkomandi skuldir. Þetta eru hundruð milljarða. Þar getum við náð slíkum árangri upp á hundruð milljarða. Að reyna hins vegar að kroppa af heimilunum og atvinnustarfseminni 10–20 milljarða er ekki leið sem mér (Forseti hringir.) hugnast. Ég tel að við ættum að forðast hana í lengstu lög. Ein forsenda þess að það (Forseti hringir.) horfir jafn vel við og nú gerir er að við fylgjum annarri stefnu.