144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

fjöldi óundirbúinna fyrirspurna.

[15:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera mjög slæmt, það er ekki það oft sem hægt er að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra og það er þörf á því eins og ástandið er núna í þjóðfélaginu, kjaradeilur loga og hæstv. ráðherra lýsir því yfir að mögulega hafi verið gengið of langt í því að jafna kjör í landinu. Er þetta nú það innlegg sem við þurfum i kjaraviðræður í landinu, að verkalýðshreyfingin fái það í fangið að hæstv. fjármálaráðherra segi að lægstu laun í landinu séu trúlega orðin of há og þess vegna geri BHM svona miklar kröfur, þeir væru trúlega sáttari ef láglaunafólk í landinu væri með lægri laun en 214 þús. kr.?

Ég tel fullt tilefni til þess að fá að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um þessar fullyrðingar hans í fjölmiðlum undanfarið. Og mér finnst slæmt að hann sé farinn því að hann hefði (Forseti hringir.) átt að óska eftir því að sitja hér áfram fyrir svörum fyrst búið var að kynna mig til leiks.