144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Í fyrsta lagi varðandi aðhaldsmarkmiðið, 1%. Í venjulegu árferði þætti ekki mikið að taka útgjöldin niður um 1% til að rýma fyrir nýjum verkefnum, 1% er 5,5 milljarðar eins og hv. þingmaður benti á, en þegar við erum að koma út úr svona mikilli lægð og miklum niðurskurði eins og við erum að gera munar um hvert prósent í niðurskurði.

Heilbrigðiskerfið naut ekki góðærisins en hins vegar komumst við ekki hjá því að skera þar niður þegar við þurftum að ná jafnvægi og loka fjárlagagatinu. Heilbrigðiskerfið stóð ekki vel þegar hrunið dundi yfir okkur og þess vegna hef ég áhyggjur af því að það eigi að skera niður um 5,5 milljarða kr. vegna þess að það er ekki hægt annað en að fara inn í velferðarmálin. Velferðarmálin, heilbrigðismálin, menntamálin, þetta eru málaflokkarnir sem taka mest til sín og ég get ekki séð að við komumst hjá því að skera þar niður með þessu aðhaldsmarkmiði. Það er virkilega áhyggjuefni.

Varðandi uppbyggingu nýs Landspítala minnir mig að það standi í ríkisfjármálaáætluninni að það eigi að bjóða byggingu meðferðarkjarnans út í kjölfar þess að hönnuninni verði lokið. Hins vegar er ekki talað um ákveðna fjármuni í því sambandi eða hvaðan eigi að taka peningana.

Ég verð að koma að S-merktu lyfjunum í næsta svari.