144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Eins og margir þingmenn sem hafa komið á undan mér í þessa umræðu fagna ég því að þetta frumvarp er komið fram, ekki endilega af því að ég sé svo glöð með allt sem í því stendur, heldur yfir því að ég held að það sé mikill áfangi í því hvernig unnið er að fjárlögum hér á landi, að ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára sé lögð fram. Það hefur verið gert hér og því ber að fagna. Í þessari áætlun kemur hins vegar glöggt í ljós, ef rýnt er í tölur og annað, að þessi fjármálaáætlun endurspeglar stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er út af fyrir sig alveg eðlilegt, virðulegi forseti, hvernig ætti það öðruvísi að vera? Eins og þessi ríkisstjórn hefur sýnt undanfarin tvö ár er hún ekki ríkisstjórn jöfnuðar. Hún er ekki mjög félagslega sinnuð. Það hefur blasað þannig við mér að hún hefur bætt hag þeirra sem best mega sín í þessu þjóðfélagi á meðan hinir hafa verið látnir sitja svolítið á hakanum.

Til sannindamerkis um þetta langar mig að benda á einkaneysluna. Á bls. 6 í plagginu kemur fram, með leyfi forseta:

„Við lok spátímans verður hlutfall einkaneyslu af landsframleiðslu orðið 52% en það er nokkuð fyrir neðan langtímameðaltalið sem er 57%.“

Ríkisstjórnin stefnir að því að auka einkaneyslu í landinu. Út af fyrir sig er ekkert vont að auka einkaneyslu, en það er vont ef það verður til dæmis til þess að komugjöld á spítala hækka og hlutir sem við teljum að eigi að vera inni í sameiginlega félagsmálakerfinu færast yfir í einkaneysluna. Þá er það ekki gott mál. Til að bera þetta saman við annað sem kemur fram í áætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur ríkisins lækki úr 28,2% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2015 í 26,7% árið 2019. Þetta þýðir ekkert annað en að það á að draga úr samneyslunni. Og hvað er samneysla? Samneysla er sú þjónusta í landinu sem við stöndum öll að saman, almannatryggingarnar, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, sem sagt þau kerfi sem við jafnaðarmenn lítum á sem hornsteininn í því þjóðfélagi sem við viljum byggja upp. Þess vegna finnst mér þetta ekki boða gott.

Á bls. 6 stendur reyndar líka, til að halda áfram með samneysluna:

„Samneyslan dróst saman í hruninu en því er spáð að hún muni vaxa um u.þ.b. 1,5% árlega á næstu árum. Vöxturinn fyrir hrun var að jafnaði um 4%.“

Við erum alltaf að tala um hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu þannig að núna á aukningin að vera 1,5% eftir allan samdráttinn og eftir allt sem þurfti að gera til að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl. Það á að auka samneysluna um 1,5% árlega samanborið við 4% árlega fyrir hrun. Þetta finnst mér ekki boða gott. Það er alveg ljóst að þetta plagg sýnir mjög ljóslega áherslur ríkisstjórnarinnar, ef ég má orða það svo.

Það er boðað að létta af sköttum og eitthvað svoleiðis. Mig langar endilega að taka fram hérna í þessu stutta innleggi mínu að ég er bæði hissa og vonsvikin yfir að ekki sé lögð meiri áhersla á lækkun á tryggingagjaldi. Tryggingagjald er sá skattur sem kæmi litlu fyrirtækjunum í landinu best að væri lækkaður, það er sá skattur sem kemur þessum fyrirtækjum verst. Það á vissulega að lækka tryggingagjaldið, en það er svo lítið að það er varla orð á því gerandi, virðulegi forseti. Þetta finnst mér alveg stórundarlegt, ekki síst í ljósi þess að litlu fyrirtækin eru einmitt vaxtarbroddurinn í okkar þjóðfélagi sem við þurfum að hafa gætur á.

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. ráðherra talaði fyrir þessu fyrir helgi lagði hann undir lok ræðunnar mikla áherslu á að hagspáin í þessu sýndi fram á mjög bjarta tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar. Mjög bjarta tíma og eins og aldrei fyrr, sagði hann. Ég verð að segja að vissulega hljótum við öll að fagna því ef það er rétt þó að við séum, eins og lög gera ráð fyrir eða stjórnmál gera ráð fyrir, ekki sammála um hvernig við skiptum þessum mikla efnahagsbata sem hæstv. ráðherra telur að við eigum von á. Þá vil ég líka segja að það er mikil óvissa í þessu plaggi, mikil óvissa um þennan efnahagsbata. Þar eru gjaldeyrishöftin stór þáttur og þar eru líka kjarasamningar. Við vitum öll hvernig ástandið á vinnumarkaði er núna og það er annar óvissuþátturinn. Í þessari kjaradeilu sem nú stendur er ríkið beinn samningsaðili við BHM, það er alveg ljóst, ríkið á að semja við BHM. Ríkið heldur áfram með þessi 3,5%, skilst mér, sem það segist geta samið um og þetta er ríkið sem afsalar sér 10 milljörðum í auðlegðarskatt, afsalar okkur tekjum af veiðigjöldum og segist ætla að fara að kvótasetja makríl. Menn telja að það séu á bilinu 100–150, sumir nefna upp í 170, milljarðar sem á að færa útgerðunum og einkageiranum í landinu með þeirri aðferð. Á sama tíma er ekki hægt að borga fólki sómasamleg laun í þessu landi. Ef launin í landinu væru hærri þyrfti kannski ekki að fella niður virðisaukaskatt á barnafötum og þá þyrftu húsaleigubætur ekki að vera jafn háar. Svo margt í hagkerfinu mundi lagast ef launin í landinu væru almennileg, svo ég orði það bara þannig.

Virðulegi forseti. Í lokin á ræðu minni langar mig að segja að ég sakna framsóknarmanna í umræðunni. Hv. þm. Willum Þór Þórsson talaði vissulega fyrir helgi, en aðrir framsóknarmenn hafa ekki talað hér og láta ekki sjá sig. Ég held að ég hafi lýst því í þessari ræðu minni að ég gæti trúað að áherslurnar í þessu væru félagslega sinnuðum framsóknarmönnum ekki mjög til geðs. Rétt í lokin vil ég minna á að hvergi er minnst á húsaleigubæturnar sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra leggur kannski fram eftir ár eða svo, eða tvö, ég veit ekki hvenær það verður. En það (Forseti hringir.) er ekki gerð nein áætlun um þær hér.