144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það er margt jákvætt hér. Auðvitað á maður líka að tala um það sem vel er gert, en á tíu mínútum ákveður maður samt að taka gagnrýnina á þetta. En þetta er rétt og bara það til dæmis að við höfum náð að loka fjárlagagatinu er mjög gott.

Ég hef rætt það við hv. þingmann áður að ég hefði notað þessa 80–100 milljarða sem fóru í skuldaniðurfellinguna til heimilanna í að greiða niður skuldir ríkissjóðs, vegna þess að það eru skuldir okkar allra og með því hefðum við sparað milljarða á ári í vaxtakostnað.

Það er ekki gert ráð fyrir því beinlínis, eftir því sem ég kemst næst, að við förum að borga mikið niður skuldir, en þar sem hagkerfið mun náttúrlega vaxa með hverju árinu þá minnka þessi vaxtagjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ég held að við séum ekki að gera nóg, af því að þessi mikla skuldsetning er of mikill áhættuþáttur. Þess vegna finnst mér koma til greina að selja hlutinn í Landsbankanum og greiða inn á lánin, en er svo sem ekki að segja að ríkið sé í góðri aðstöðu núna til að greiða niður lán. Við þekkjum það sem sitjum í fjárlaganefnd, og hv. þingmaður hefur setið þar líka, að það er mikil fjárþörf víða og ekki auðvelt að skera niður. Ég get ekki sagt að ég geti séð einhverja fjárlagaliði hægri, vinstri sem ég gæti strikað út, það felst meira í því, ef það er hægt, að hagræða í sameiningu stofnana eða annað, en ég sé engar stórkostlegar sparnaðarleiðir akkúrat hér og nú hjá ríkinu, ekki þannig að við getum farið að greiða niður lán með einhverju offorsi. Þess vegna verðum við að vera raunsæ og horfa á það að við viljum auka tekjurnar (Forseti hringir.) og selja eignir sem við erum tilbúin að selja, eins og kannski hlutinn í Landsbankanum.