144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa sagt að tillaga til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 er mjög jákvætt skref í undirbúningi og aðdraganda að gerð fjárlaga, kemur til viðbótar því sem oft hefur fylgt fjárlögum. Hlutverk ríkisfjármálaáætlunar er að gefa þinginu tækifæri til að móta stefnu til lengri tíma fyrir fjármálaráðuneytið, ráðherra og ríkisstjórnina þannig að fjárlög eiga síðan byggjast á því sem hér er ákveðið. Þess vegna er mikilvægt að ríkisfjármálaáætlun verði þróuð áfram þannig að áður en fjármálaráðuneyti og ráðuneyti fara að skipta út peningum sé búið að fjalla um málið á Alþingi og gefa tóninn og raunar fyrirmæli um hvernig eigi að standa að fjármálum næstu ára.

Það er fróðlegt að fá skýrslur, hverja á fætur annarri, þar sem farið er yfir hvernig þróunin hefur verið á undanförnum árum, vegna þess að við höfum auðvitað gengið í gegnum mjög undarlega tíma, bæði með öllum uppganginum á árunum 2000–2008 þar sem allt keyrði fram úr og fór úr böndunum og með bankahruni sem fylgdi síðan í kjölfarið 2008. Það er fróðlegt að sjá hvaða áhrif þær aðgerðir sem þá var gripið til hafa haft á ríkisfjármálin, t.d. er forvitnilegt að skoða þróun verðbólgu og kaupmáttar launa. Menn hafa látið eins og kaupmáttur launa hafi verið að aukast bara á síðasta ári eða síðustu tveimur árum frá því að þessi ríkisstjórn tók við. En það kemur náttúrlega mjög skýrt fram í línuriti sem hér fylgir um þróun verðbólgu og kaupmáttar launa að kaupmáttur eykst mjög mikið strax frá árinu 2010, síðan stendur hann svolítið í stað og tekur núna stökk til 2015. Það er reiknað með að aukning kaupmáttar launa verði svipuð á næstu þremur árum og var á árunum 2010–2013, þannig að ekki er markmiðið sett hærra en það. En við skulum sjá hvað kemur út úr kjarasamningum núna og hvaða afleiðingar þeir hafa fyrir verðbólgu og annað.

Það er líka mjög forvitnilegt að skoða atvinnuleysið sem jókst mjög hratt árið 2008, komst upp í rúmlega 9%, sem er gríðarlega hátt á íslenskan mælikvarða, en byrjar að lækka svo 2010 og lækkar síðan línulega beint niður. Það ber auðvitað að fagna því að atvinnuþátttaka hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2010 og atvinnuleysi er núna komið niður í á milli 3 og 4%.

Þá er vert að skoða líka hvernig launahlutfallið hefur breyst, þ.e. hlutfall launakostnaðar af vergum þáttatekjum, sem kallað er. Það hrundi árið 2009 frá því sem það var hæst 2005, 2006, og það er einsdæmi í sögunni og engin fordæmi fyrir hversu mikið það hrundi þá. Launahlutfallið er á hraðri uppleið aftur en engu að síður hefur það ekki náð fyrri hæðum hvað þetta varðar. Allt þetta skiptir mjög miklu og vert að fylgjast með.

Þegar maður skoðar afkomu ríkissjóðs er líka mjög fróðlegt að skoða þá þróun sem varð á henni. Menn hafa bent á, þegar rætt er um tímabilið eftir hrun, að hér varð gríðarlegur niðurskurður í útgjöldum hins opinbera. Það kemur vel fram í stöpla- og línuriti yfir afkomu ríkissjóðs 2005–2019, án óreglulegra liða, hvernig jákvæð afkoma breyttist skyndilega í gríðarlegt tap. Og það er ekkert ofsögum sagt um það hrun, við bentum ítrekað á að við fengum á okkur, frá því að vera með nánast skuldlausan ríkissjóð, gríðarlegar skuldir og halla á ríkissjóði upp á yfir 200 milljarða sem varð að rétta af á skömmum tíma. Þá var farin blönduð leið. Það sést mjög vel á súluriti í þessu plaggi frá hæstv. ríkisstjórn og frá hæstv. fjármálaráðherra að jöfnuði er nánast náð, heildarjöfnuði, árið 2013, sem sagt fyrir kosningar. Það má ekki gera lítið úr því að þetta batnar áfram, en það verður spennandi að sjá hvernig þessu reiðir af í framhaldinu vegna þess að það kemur líka fram í þessum gögnum að núverandi ríkisstjórn hefur afsalað sér tekjum. Það kemur einnig skýrt fram að þar með er niðurgreiðsla af lánum afar lítil og svigrúm til fjárfestinga og nýfjárfestinga er mjög takmarkað. Það er því vandséð hvernig ríkissjóði mun reiða af til langs tíma.

Við sögðum á sínum tíma þegar verið var að reyna að ná jöfnuði í ríkisfjármálum að mikilvægast væri að ná að breyta vaxtagjöldum yfir í velferð og tryggja að ríkið héldi ekki áfram skuldasöfnun, en á sama tíma hefur auðvitað alltaf komið betur og betur í ljós að það var eins gott að við fórum þó ekki harðar í niðurskurðinn en við gerðum. Við áttuðum okkur á því þá og ég hef margoft farið yfir það í ræðum árið 2012 að þá var of langt gengið. En enn þá er verið að tala um að draga saman hjá ríkissjóði, í þessu plaggi er rætt um frekari hagræðingar og minnkun hlutfalls útgjalda til ákveðinna málaflokka miðað við landsframleiðslu. Af þessu hef ég miklar áhyggjur vegna þess að undir þessu er samneyslan og þjónustan við íbúana, þar með heilbrigðiskerfið, menntakerfið og lífeyrisgreiðslur. Það er mikið áhyggjuefni ef menn ætla að færa meira yfir í einkaneysluna, annaðhvort með því að auka gjaldtökur eða með því að rýra þjónustuna. Um það svarar þetta plagg ekki neinu, stefnan virðist vera sú að fara ameríska/breska leið þar sem samneysla er minnkuð og fært yfir í einkaneyslu.

Ég nefndi að það væru litlar fjárfestingar og það er athyglisvert miðað við umræðuna á undanförnum árum og líka þann forgang sem menn hafa sagst ætla að setja og raunar skrifað undir og lofað, þ.e. að bæta heilbrigðiskerfið þannig að það verði samkeppnisfært við það besta sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Við sjáum hér að afar hægt er farið í að setja nýbyggingu og endurbyggingu á nýjum Landspítala af stað og fjárfestingarnar eru í heildina mjög veikar. Það er jákvætt að töluvert er sett í rannsóknarsjóði á næstu árum og ég held að það sé góð fjárfesting og skipti mjög miklu máli, en á sama tíma fer nánast ekkert í samgöngumál og fleiri málaflokka sem skipta líka gríðarlega miklu máli.

Menn hafa hælt sér af því að lækka skatta þrátt fyrir gagnrýni á þessa svokölluðu brauðmolakenningu, sem felur í sér að skammta vel til þeirra sem hafa mest og það muni skila sér sem brauðmolar handa lágstéttunum. Sú gagnrýni hefur komið fram bæði frá OECD og meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að gæta verði þess að fara ekki of bratt í niðurskurð og tryggja að fólk hafi fjármagn til neyslu. Í sama tilgangi hafa Evrópuþjóðirnar brugðist við með því að lækka vexti, jafnvel farið í neikvæða vexti tímabundið til að auka neysluna, en á Íslandi fylgjum við í raunveruleikanum enn þá brauðmolakenningunni þegar kemur að skattbreytingum. Ef maður skoðar þetta nánar þá kemur fram í þessu plaggi að tekjuskattur sem hlutfall af landsframleiðslu, sem er mælieiningin yfir heildarveltu samfélagsins, var árið 2013 16,8%, hækkaði árið 2014 upp í 18% af landsframleiðslu og 2015 er reiknað með að hlutfallið fari niður í 17,7%. En á árinu 2019 og raunar næstu þrjú ár sem þessi áætlun nær til á tekjuskatturinn að skila 18,3% af vergri landsframleiðslu, þannig að í raunveruleikanum tekur nýja ríkisstjórnin meira til sín af tekjuskatti. Hins vegar lækka þeir eignarskattinn, sem átti að skila 2,5%, hann dettur niður í 1,9% af landsframleiðslu. Og það er einmitt auðlegðarskatturinn þar sem menn skila til þeirra sem mest hafa, en það nær ekki til almenna launafólksins.

Það eru auðvitað stór verkefni sem hér vantar inn í sem hefði þurft að ræða og fara yfir, t.d. að lífeyrisþegar eiga að hækka um 1% í kaupmætti á sama tíma og hækkunin er 2% almennt hjá launþegum. Það er ekkert um hjúkrunarheimilin. Ég nefndi áður nýja spítalann og það er ekkert um húsnæðisbætur eða bætur í húsnæðiskerfinu. Hér er að finna söluna á Landsbankanum en þar höfum við ekki fengið viðbrögð Framsóknar, sem gerði ályktun um að ekki ætti að selja Landsbankann, hvaða (Forseti hringir.) áhrif hefur það á þann þátt? Þannig mætti tína til mun fleiri atriði sem maður spyr sig hvað verður um eftir að þessi áætlun verður afgreidd.