144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir spurningarnar. Hugsunin með þessum breytingum að vera með kröfu um fjögurra mánaða tryggingarfé, viðmiðið kom frá því að í dag er talað um að það megi vera með þrjá mánuði í tryggingarfé og svo er miðað við eins mánaðar fyrirframgreiðslu, þannig að það er raunar verið að tala um sama tímabilið. Hins vegar er eitt af því í núverandi lögum að í rauninni er víst hægt að vera með nánast ótakmarkaða fyrirframgreiðslu, þannig að hér er sem sagt verið að takmarka það verulega.

Síðan um það sem snýr að tímafrestinum eða uppsagnarfrestinum fyrir leigufélögin, ég vil hvetja hv. þingmann, sem er formaður velferðarnefndar, að fara mjög vel yfir það hvernig rétt sé að ramma það af. Þetta er okkar tillaga sem snýr að leigufélögunum og ég held að það sé einmitt mjög áhugavert að skoða síðan í samspili við það sem ég var að tala um hér, að fella í burtu undanþáguákvæði í 2. gr. og hvernig það kemur þá út og hvort það sé rétt að fara með sérstakt ákvæði þar inn sem snýr þá að félögum sem eru fyrst og fremst í skammtímaleigu, eins og t.d. til námsmanna.