144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[20:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi það álitamál sem ég hef sérstaklega vakið athygli á og hefur verið mér hugleiknast, svo að ég endurtaki það, í lokaumræðu um þetta mál. Þau sjónarmið togast á hvort félagsþjónusta sveitarfélaga eigi einvörðungu að sjá um þetta atriði eða hvort fjölskyldurnar eigi að geta haft aðkomu að málinu í undantekningartilvikum. Einnig togast á sjónarmið um litlu sveitarfélögin og þau sem eru veikburða til þess að takast á við þetta; það kann líka að vera þungt þeim megin. Síðan það sjónarmið hvort búið sé að loka um of á þann möguleika að fjölskyldurnar geti komið inn í málið. Þetta er óskaplega matskennt en um leið er þetta dálítið prinsippmál.

Þeir sem tala fyrir hönd þeirra sem hafa þurft að þola þetta vilja mjög gjarnan að fjölskyldurnar séu losaðar alveg undan þessu. Mér þótti varfærið, og kannski stafar það af lögfræðilegum bakgrunni mínum, að hafa þennan möguleika inni, þó með þeim orðum að það yrði að vera í algjörum undantekingartilvikum. Það er eiginlega sú jafnræðislist sem ég held að nefndin þurfi að skoða gaumgæfilega. Mín tillaga er að gera þetta svona en ég verð að viðurkenna að í þessum málaflokki hef ég alveg skilning á sjónarmiðum þeirra sem koma fram og tala fyrir hönd fjölskyldnanna því að við þekkjum óskaplega sorgleg og erfið dæmi um fjölskyldur eftir að þessu tímabili lýkur.