144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

lögræðislög.

687. mál
[21:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sumar þjóðir í okkar álfu hafa sökum sögu sinnar allt til 1934 mikla fyrirvara við það að halda nokkrar miðlægar skrár. Hér er haldin skrá yfir þá sem sæta lögræðissviptingu og nauðungarvistun og yfir aðstandendur þeirra, ráðgjafa og trúnaðarmenn. Væntanlega er það vegna þess að menn telja að það sé framvindu þessara mála til hagsbóta, að það sé í þágu þess sem sækir.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að þessi skrá, sem áður var haldið utan um í innanríkisráðuneytinu, verði færð yfir til Þjóðskrár. Ég held að það sé breyting til bóta en mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hann að slík skrá sé nauðsynleg og réttlætanleg? Telur hann kannski að henni sé betur fyrir komið hjá öðru embætti sem er mjög vant því að fara með trúnaðarupplýsingar og hefur hugsanlega meiri reynslu en Þjóðskrá, þ.e. embættis landlæknis?