144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

stytting náms til stúdentsprófs.

[11:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér á dögunum sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í ræðustól Alþingis: Meiri hlutinn ræður. Það má svo sem til sanns vegar færa að þannig er það þegar gengið er til atkvæða um þingmál, þó að líka megi velta fyrir sér hvort áskorunin í lýðræðinu snúist kannski frekar um að tryggja að raddir sem flestra nái að heyrast, stuðla að sátt og samráði í samfélaginu og vaða ekki yfir minni hlutann og þá sem best þekkja til. 25. febrúar 2014 sagði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson:

„Ég ætla mér að stytta framhaldsskólana og mun gera það.“

Þetta er sams konar pólitík og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýsir, pólitík sem snýst um það að ráða, að skipa fyrir og vaða yfir, hlusta ekki og er eitt dæmi af mörgum. Við skulum staldra aðeins við í þessari fyrirspurn við styttingu framhaldsskólans. Nú hefur komið fram að það er í raun send út tilskipun úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að stytta beri framhaldsskólann niður í þrjú ár og þar með draga úr vali og fjölbreytni á framhaldsskólastiginu, að steypa kerfið í sama mót með miðlægum hætti með tilskipun, þrátt fyrir að hjá meiri hlutanum á sínum tíma, 2008, við afgreiðslu framhaldsskólalaga hafi komið fram, með leyfi forseta:

„Áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að nám til stúdentsprófs sé ekki skert með frumvarpi þessu. Ekki er kveðið á um fjölda eininga til stúdentsprófs í gildandi lögum og telur meiri hlutinn að ekki sé þörf á slíku í frumvarpi þessu.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða stefnumörkun liggur að baki því að þvinga fram styttingu, óháð rökstuðningi? Hvaða máli skiptir samráð í huga menntamálaráðherra í stórum málum? Er ég þá líka að tala um fleiri mál eins og Menntamálastofnun, sameiningu Tækniskólans og (Forseti hringir.) Iðnskólans í Hafnarfirði og fleiri mál sem hæstv. ráðherra hefur nálgast með þessum hætti.