144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hv. þingmaður nefndi síðast er rétt að taka fram að, já, málin voru kynnt og veittir möguleikar á umsögnum. Allur verkferillinn innan ráðuneytisins hefur verið einmitt til að tryggja að þeir komi að sem þurfa og hafa hagsmuna að gæta og svo almenningur.

Ég held að það sé ekki almenn regla að það þurfi að taka jafn langan tíma í þinginu og það hefur tekið í ráðuneyti að vinna mál. Það er svolítið öðruvísi vinna sem fer fram í þingsölum og í nefndum en akkúrat við undirbúning mála innan ráðuneytanna. Það getur jafnvel stundum tekið þingið lengri tíma að fara í gegnum mál en það tekur að búa þau til í ráðuneytunum og öfugt.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þingtíminn styttist. Ég hef áður ítrekað stöðu þá sem mál nr. 701 er í og tel sjálfsagt að nefndin hafi það til hliðsjónar. Þó að málunum sé beint til þingsins saman í einu slengi, eins og hv þingmaður orðaði það, er ekki þar með sagt að það þurfi að klára málin (Forseti hringir.) og afgreiða öll saman. Það er hægt að afgreiða eitt mál af öðru, klára eitt eða tvö eða þrjú eftir því sem verkast vill.