144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[12:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég var að reyna að rifja upp með mér það fyrirkomulag sem er haft um þessa hluti. Ég held að í flest skipti þegar svona ákvarðanir eru teknar hafi þær farið fyrir þingflokksformenn, en það er þó ekki fortakslaust. Mig rekur minni til þess að það hafi líka oft verið bara ákvörðun forseta enda hefur hann fullar heimildir til þess. Sökum þess að málið er svo til komið sem hér er og að þessar athugasemdir hafa komið fram lýsi ég mig reiðubúinn til þess að reyna að vera sem mest við umræðu málsins í þinginu þannig að hv. þingmenn geti þá beint til mín með eðlilegum hætti fyrirspurnum og ég tekið meiri þátt í umræðunni til að tryggja að þau sjónarmið sem liggja að baki þessum frumvörpum af minni hálfu komi fram.

Ég ítreka líka að síðan fer meginþungi vinnunnar fram innan nefndarinnar þar sem hér er um að ræða um margt flókin frumvörp.