144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega ræðu. Það eru nokkur atriði sem ég vil tæpa á en ég ætla að byrja á að nefna eitt, sem ég hef reyndar gert áður, hvað varðar einmitt það þingmál sem er innleiðing á reglugerðum sem liggja fyrir frá Evrópu, að EFTA fylgist með því máli. Við erum komin fram yfir síðasta dag. Í sjálfu sér höfum við ekki mikið svigrúm í því máli en þá skiptir reyndar miklu að málið er komið fram á þinginu þannig að menn sjá það þá, en alla vega er sú staða uppi hvað það varðar. Það á ekki við um öll málin og þess vegna eru þau ekki öll undir þeirri pressu.

Síðan vil ég segja varðandi það sem hv. þingmaður nefndi varðandi samfelluna í lögum einmitt, þessa stóru og miklu mynd sem þingmaðurinn ræddi um. Ég er alveg sammála því að þetta hangir saman, það eru mörg lög og mörg atriði sem menn verða þá bara að gæta að því að fólk fari ekki að rekast hvert á annars horn í þessu. Það er eitt af því sem maður vonast til að hv. þingnefnd gefi sér tíma til að skoða, akkúrat þennan þáttinn. En ég vil þá ítreka eitt. Hér er ekki um að ræða einhverja heildstæða löggjöf eða lausn á öllum þeim mikla vanda sem við erum að ræða. Hér er einungis um að ræða afmarkaða þætti og þarf að horfa á það þannig að það passi inn í einhverja heildarmynd, en við erum ekki að umbylta eða gera einhverjar gagngerar grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi.

En mig langar að bæta einu við. Það sem er svo mikilvægt að tryggja er að listamennirnir fái greitt fyrir sín verk. Ef það gerist ekki þá mun eina lausnin verða sú að ríkið taki að sér að reka listamennina. Ef þeir hafa ekki framfærslu þá endar það þar. Það er náttúrlega ekki gott, við viljum ekki að það þróist þannig.