144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að auglýsingin sem um ræðir er of löng. Þetta minnir helst á þegar prestar skamma þá sem mæta í kirkju fyrir að aðrir mæti ekki. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil segja hvað varðar milliliðina, sem mér finnst mjög áhugavert, að það er rétt sem hv. þingmaður segir, það getur verið heilmikil sérfræðiþekking þar sem skiptir máli varðandi einmitt ritstjórn og annað slíkt og líka að kunna að koma vörum á framfæri. En um leið er það þannig að milliliðurinn eins og við þekkjum hjá hefðbundnu útgáfufyrirtækjunum er þá líka farinn að stýra framboðinu og þar með eftirspurninni. Þeir algóritmar sem liggja til dæmis undir hjá Spotify eru þannig að einstaklingur velur sér ákveðið lag og aðrir valmöguleikar koma fram um hvað sé mögulegt að velja í framhaldinu — þá stjórnar fyrirtækið því mjög mikið hvað neytandinn sér og er líklegt að hann velji í framhaldinu. Í því er auðvitað fólgið mjög mikið vald.

Um leið og við erum að tala um allt frelsið sem internetið býr til getum við heldur ekki horft fram hjá svona löguðu vegna þess að það geta ekki allir gert allt. Dreifingin er svo mikil að það er alveg öruggt að það verður einhver samþjöppun þannig að neytendur hafi einhvern einn stað eða nokkra staði til að fara á. Þeir sem stýra því stýra ansi miklu og reyndar mjög miklu. Slík fyrirtæki geta orðið miklu stærri þegar upp er staðið og valdameiri en hefðbundin útgáfufyrirtæki voru. Það er sjálfsagt að hugleiða þetta þegar við veltum fyrir okkur löggjöfinni og þróuninni sem verður á þessum markaði.