144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

höfundalög.

700. mál
[14:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er ekkert að því, eins og ég sagði hér áðan, að milliliðir séu til staðar því að þeir hafa oft mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir kunni allt. Þannig er bara samfélagið sem við búum í, það er flókið og fólk hefur ólíka sérþekkingu. Sá sem er góður í að búa til tónlist er ekki endilega góður í að markaðssetja hana eða koma henni á framfæri í þessum nýja tæknivædda heimi. Sé milliliðurinn góður í því að veita þá þjónustu er að sjálfsögðu ekkert að því, ekki frekar en í raunheimum.

Það sem ég velti hins vegar upp án þess að vera búin að móta það neitt sérstaklega í mínum huga er að maður sér að í netheimum eins og raunheimum ná ýmsir aðilar yfirburðastöðu sökum þess að þeir eru fyrstir, hafa mikla þekkingu, vissulega þekkingu sem er öllum aðgengileg, og það sýnir sig líka að þar sem fjármagnið safnast saman dregur það að sér meira fjármagn. Við getum þannig velt því fyrir okkur hversu auðvelt er að brjótast inn þegar einhverjir aðilar eru búnir að „etablera“ sig, getum við sagt, í einhverjum bransa, til að mynda í tónlistarveitu á netinu, hversu auðvelt er að brjótast inn í þann geira. Þó að við köllum það samkeppnisumhverfi þá getum við bara séð hvernig það hefur virkað hingað til í raunheimum, t.d. þegar Rockefeller tók yfir og setti alltaf upp bensínstöðvar á móti nýjum bensínstöðvum og þá hröktust þær úr bisness. Það eru auðvitað sömu lögmál sem gilda þarna og annars staðar.

Undirstaðan verður auðvitað vera í lagi, þ.e. þekkingin þarf að vera aðgengileg öllum og hún þarf að vera ókeypis. Það þurfa að vera tækifæri til þess að fólk geti komist inn á þennan markað. Það er ekkert að því að milliliðirnir fái greitt svo fremi sem það sé þá í einhverju hlutfalli við þá þjónustu sem þeir veita.