144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

upplýsingalög.

272. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er lagafrumvarp sem þrír flutningsmenn eru á. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Óli Björn Kárason, sem er ekki á þingi núna, síðan sá sem hér stendur og hv. þm. Brynjar Níelsson.

Málið er mjög einfalt. Það gengur út á að skylda stjórnvöld og lögaðila, sem eru 51% eða meira í eigu hins opinbera, að birta opinberlega sundurliðaðar upplýsingar um kaup á vöru og þjónustu yfir 150 þús. kr. í hverjum almanaksmánuði nema ákvæði 10. gr. um takmarkaðan upplýsingarétt vegna almannahagsmuna eigi við. Upplýsingarnar skulu vera öllum aðgengilegar og birtast í mánaðarlegu yfirliti á heimasíðu viðkomandi stjórnvalds eða lögaðila eigi síðar en 10. dags næsta mánaðar. Þar skal kaupfjárhæð koma fram ásamt lýsingu á keyptri vöru og þjónustu, þá skulu einnig fylgja upplýsingar um hver seljandi er. Í örstuttu máli: Allir reikningar sem eru umfram 150 þús. kr. skulu birtir opinberlega þannig að almenningur geti haft aðgang að þeim.

Einhver kynni að segja að þetta væri róttæk hugmynd en hún er ekki róttæk. Hún miðar að því að veita opinberum aðilum aðhald þegar kemur að útgjöldum. Það er eilífðarbarátta. Það má færa full rök fyrir því að sú barátta gangi ekkert sérstaklega vel. Núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hefur látið sérstaklega til sín taka hvað viðkemur útboðum á vörum og þjónustu. Þrátt fyrir augljósa kosti þess að stunda útboð og nýta kraft stærðarinnar, þ.e. hins opinbera, þegar kemur að slíkum innkaupum þá eru verulegar brotalamir á því og það kostar gríðarlegar fjárhæðir. Ef þetta væri gert, reikningar yrðu opinberir og öllum aðgengilegir, þá er enginn vafi á því að meiri pressa og aðhald yrði fyrir viðkomandi stofnanir að uppfylla þessi lagaskilyrði. Það er enginn vafi á því að ýmsir aðilar, jafnt einstaklingar sem aðilar sem veita sömu þjónustu, mundu fylgjast með þessu og veita viðkomandi stofnunum aðhald og benda á ef hægt væri að kaupa vörur og þjónustu ódýrari en nú er gert. Þess vegna á þetta mál að vera forgangsmál eins og öll önnur mál sem snúa að því að gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri. Þetta á ekki bara við um ríkið heldur líka sveitarfélög.

Til að setja þetta í eitthvert samhengi þá voru kaup ríkis og sveitarfélaga á vöru og þjónustu á árinu 2012 um 27% af heildartekjum sem náðu 740 milljörðum kr. Þá voru ótalin kaup fyrirtækja í meirihlutaeigu opinberra aðila en þar er líka af nógu að taka. Við erum að tala um gríðarstór fyrirtæki eins og Landsvirkjun, Íbúðalánasjóð, Ríkisútvarpið, fyrirtæki sem væri afskaplega mikilvægt að veita aðhald þegar kemur að útgjöldum.

Þetta er ekki róttækara en svo að þetta hefur verið í gangi í ýmsum löndum sem við berum okkur saman við. Á síðustu árum hafa verið stigin ákveðin skref í Bretlandi til að opna opinbera stjórnsýslu og gera fjármál ríkis og sveitarfélaga gagnsærri. Árangurinn er aukið aðhald, sparnaður í innkaupum og ekki síður hefur orðið til jarðvegur fyrir einstaklinga og fyrirtæki með nýjar og ódýrar vörur og þjónustu fyrir opinbera aðila. Það held ég að sé gríðarlega mikilvægt því að eðli málsins samkvæmt er ekki sjálfgefið að þær fjölmörgu stofnanir sem kaupa inn geti alltaf verið að fylgjast með öllum hlutum, hraðinn í þjóðfélaginu er slíkur. Þetta er sem betur fer í gríðarlegri þróun. Þetta fyrirkomulag getur án nokkurs vafa, eins og ég nefndi áðan, orðið til þess að þeir aðilar sem koma með nýjar vörur eða þjónustu geta borið sig saman við aðra og eins getur stofnun A skoðað hvað er að gerast hjá stofnun B; þá geta menn séð ýmislegt sem þeir átta sig ekki á núna.

Á Bandaríkjaþingi voru árið 2006 samþykkt lög sem hétu, með leyfi forseta, með leyfi forseta, The Federal Funding Accountability and Transparency Act of 2006. Í þeim var alríkinu og stofnun þess gert skylt að birta opinberar upplýsingar um hvernig fjármunum ríkisins er varið. Í samræmi við lögin var komið á fót sérstakri vefsíðu, USASpending.gov, þar sem skattgreiðendur geta nálgast upplýsingar um það hvernig alríkið ver fjármunum sínum. Nú hafa a.m.k. 46 ríki í Bandaríkjunum opnað svipaðar vefsíður þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um útgjöld viðkomandi ríkis, m.a. kaup á vöru og þjónustu. Margar borgir og sveitarfélög í Bandaríkjunum hafa farið svipaða leið. Ábendingar almennings og fjölmiðla í Bandaríkjunum hafa leitt til þess að milljónir dala hafa sparast og aukinn þrýstingur orðið til þess að opinberir aðilar hafa farið betur með skattfé og sóun hefur minnkað. Líkur á spillingu minnka líka þegar upplýsingarnar eru aðgengilegar öllum.

Þegar maður fer yfir málið, virðulegi forseti, þá spyr maður sig í rauninni af hverju þetta sé ekki svona hér. Einhvern tíma hefði verið sagt að þetta væri svo mikið mál, en í breyttum heimi með alnetinu og tölvutækninni er þetta miklu auðveldara en áður. Núverandi ríkisstjórn og þá hæstv. fjármálaráðherra hefur stigið skref í þessa átt með því að opna lénið ríkisreikningur.is. Einnig verður auðveldara að fylgjast með fjárlögunum ef við samþykkjum frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um opinber fjármál því að þá getum við líka séð þróunina hjá stofnunum, hvernig þróunin hefur verið varðandi fjárlögin á milli ára. Það er ekki hægt að gera núna nema með sérstökum aðferðum og sérstakri vinnu.

Virðulegi forseti. Það eru engin málefnaleg rök sem mæla gegn því að við förum þessa leið. Það eru ekki tæknileg rök. Við getum að vísu fært rök fyrir því að það þurfi að vinna heimasíður, tölvukerfi og annað slíkt til að þetta verði jafn aðgengilegt og mögulegt er, eins og verður gert með ríkisreikningur.is. Velkist einhver í vafa um að sá kostnaður muni ekki skila sér? Væntanlega verður einhver útlagður kostnaður þegar kemur að þessu. Við í hv. fjárlaganefnd höfum pressað á það að fylgja eftir þeim skýrslum, úttektum og tillögum sem hafa komið frá opinberum stofnunum frá því að við tókum við. Við tókum það sérstaklega fram í meirihlutaálitinu. Við kölluðum eftir því að Ríkiskaup færu yfir hvernig gengi miðað við þær pólitísku áherslur sem við höfum haft í meiri hluta fjárlaganefndar og hjá stjórnarflokkunum. Við gerðum það í þessari viku. Þá var kynnt fyrir okkur vinna á vegum hæstv. fjármálaráðherra þar sem ýmsar tillögur komu um þessa hluti og ekki bara tillögur, stóra málið var náttúrlega að fara yfir það enn og aftur hvað við nýtum lítið þau tæki sem við höfum þegar kemur að opinberu innkaupum.

Ég get tekið eitt dæmi. Verð á borðtölvum, nokkurn veginn eins tölvum, er svo mismunandi að það munar meira en tvöfalt á verði á slíkum tölvum hjá opinberum stofnunum. Samt sem áður eiga að vera rammasamningar í gangi sem gera það að verkum að menn eiga að geta haft aðgang að ódýrum vörum en þessir möguleikar eru ekki nýttir.

Þetta er ekki bara gott mál, þetta er algerlega nauðsynlegt mál. Það er fullkomið forgangsmál að ganga í það að veita almenningi aðgengi að þessum upplýsingum, nákvæmlega eins og þau lönd sem við berum okkur saman við gera. Ef við gerum það hjálpum við almenningi, fjölmiðlum, fræðimönnum og stjórnmálamönnum að veita opinberum stofnunum aðhald. Það þarf ekki að setja í neikvæðan búning, það mun líka gera það að verkum að viðkomandi stofnanir eigi auðveldara með að sjá hvernig gengur hjá öðrum stofnunum og geta lært af þeim.

Við höfum ýmsar skoðanir á stjórnmálum í þessum sal og í þjóðfélaginu almennt. Það getur hins vegar ekki verið deilumál, hvað svo sem opinberar stofnanir fara út í, að farið sé eins vel með fjármuni og mögulegt er. Auðvitað er útópía að halda því fram að við náum einhvern tíma þeim stað að það sé óumdeilt hvernig eigi að gera það, það er auðvitað ekki þannig. En ef þetta frumvarp verður samþykkt fjölgum við tækjunum og auðveldum okkur öllum að ná því markmiði að nýta opinbera fjármuni sem best. Það þýðir að við ýtum líka undir nýsköpun í þjóðfélaginu.

Segjum að einstaklingar mundu stofna lítið fyrirtæki með spennandi lausnum — hvað er betra fyrir viðkomandi einstaklinga en að hafa aðgengi að upplýsingum sem þessum, geta haft samband við forsvarsmenn stofnana eða ráðuneyta og bent þeim á að þeir gætu náð miklu betri árangri eða verði miðað við það sem þeir væru að gera ef þeir mundu versla við þetta nýja fyrirtæki?

Ég held að þetta muni ekki einungis verða til sparnaðar, ég held að tortryggni muni minnka í þjóðfélaginu og tortryggni í þjóðfélaginu er orðið sérstakt þjóðarmein. Það er mikið um það eins og við vitum. Við þurfum ekki annað en að skoða fjölmiðla, bloggsíður og annað slíkt til að sjá það, menn sjá samsæri í ýmsum hornum. Nú má vera að slíkt sé til staðar, ég er útiloka það alls ekki, auðvitað hlýtur eitthvað slíkt að vera til staðar, en ég held að það sé útilokað að það sé í þeim mæli sem maður greinir af hinum ýmsu vefmiðlum. Það eru minni líkur á tortryggni eftir því sem fleiri slíkar upplýsingar eru aðgengilegar. Og þó svo það væri slæm leið ef sumar stofnanir þyrftu bara að gera þetta en aðrar ekki þá held ég að það gerði að verkum að menn gætu gert samanburð og lært af því ef þetta ætti við allt hið opinbera kerfi, ekki bara ríkið heldur líka sveitarfélög og ég tala nú ekki um opinberu fyrirtækin.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er tæki til að nýta opinbera fjármuni betur. Til þess er þetta frumvarp lagt fram. Það er til að ná betri hagkvæmni, meiri sparnaði, ná betri nýtingu á skattfé, minnka líkurnar á spillingu og ýta sömuleiðis undir nýsköpun og framþróun í þjóðfélaginu. Ég tel að við eigum að klára þetta mál eins hratt og mögulegt er. Ég legg til að þessu máli verði vísað til hv. fjárlaganefndar sem mun fara yfir málið. Það er algerlega í anda þess sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur unnið eftir.

Það hafa ekki verið hávær mótmæli gegn málinu en þó svo maður hafi ekki fengið mikinn stuðning frá stjórnarandstöðunni þegar kemur að aðhaldi og sparnaði í ríkisfjármálum og forgangsröðun. Ég hef ekki fundið fyrir stuðningi, frekar hefur verið þvælst fyrir. Það er gríðarlega mikil varðstaða um opinberar stofnanir og þó svo menn í orði kveðnu tali um að það skipti máli að forgangsraða í þágu grunnþjónustu og annars slíks þá hefur það ekki verið gert á undanförnum árum. Það var ekki gert á síðasta kjörtímabili. Þá var forgangsraðað í þágu eftirlitsstofnana, ákveðinna undirstofnana umhverfisráðuneytisins, einstakra menningarstofnana og sérstaklega utanríkismála en sparað þegar kom að heilbrigðismálum og menntamálum. Ég tel það vera ranga forgangsröðun en að ein ástæðan fyrir því að svo var hafi ekki verið illkvittni síðasta stjórnarmeirihluta heldur hafi menn ekki haft nógu góða sýn á að gagnsæi í ríkisfjármálum sé ekki verið nógu mikið.

Það er enginn vafi í mínum huga að ef almenningur væri meðvitaðri um hvernig ríkisfjármálin eru samsett, ef almenningur væri meðvitaðri um þróun ríkisfjármálanna þá gengi okkur betur að forgangsraða. Burt séð frá stjórnmálaskoðunum þá held ég að almenningur sé á því að við eigum að forgangsraða í þágu grunnþjónustu. Það má vera að einstaka stjórnmálamenn séu annarrar skoðunar en þeir tala ekki um það opinberlega. (Forseti hringir.)

En hvað sem því líður þá vonast ég til þess að við náum góðri umræðu um þetta mál og legg til að því verði vísað til hv. fjárlaganefndar.