144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

upplýsingalög.

272. mál
[16:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir þetta að mörgu leyti áhugavert mál, sem hv. þm. talaði Guðlaugur Þór Þórðarson talaði hér fyrir. Ég er raunar ekki sammála því sem hann sagði hér undir lok ræðu sinnar, um að á síðasta kjörtímabil hefði ekki verið forgangsraðað í þágu grunnþjónustu, en ég ætla ekki að gera það að meginatriði þessa andsvars míns heldur frekar einbeita mér að frumvarpinu sem, eins og ég segi, mér finnst um margt frekar áhugavert.

Ég er alveg sammála því að ríkið eigi að sýna aðhald og að almenningur eigi að hafa góðar og aðgengilegar upplýsingar um fjármál ríkisins. Um það held ég að við deilum alls ekki. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að svo sé almennt hjá ríkisstofnunum, að þær fari vel með peningana, en auðvitað má alltaf bæta hlutina.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í er: Af hverju er valið að draga línuna við þessa upphæð, 150.000 kr.? Hvaðan kemur sú tala? Ef hv. þingmaður væri til í að útskýra það fyrir mér þannig að ég geti kannski betur áttað mig og glöggvað á málinu sem mér finnst allra góðra gjalda vert að skoða nánar.