144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

upplýsingalög.

272. mál
[17:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég verð að viðurkenna það hér og nú að ég hef ekki lagst yfir þessi gögn, þessar tölur og þessi skjöl sem hv. þingmaður vísaði í varðandi opinber innkaup. En ég get hins vegar sagt að ég var í gær stödd á ársfundi Landspítalans og þar var farið yfir það hvernig spítalinn hefur innleitt kerfi hjá sér einmitt í því augnamiði að minnka sóun og nýta fjármuni og allan starfsafla sinn betur. Ég gat ekki annað séð en þar væri unnin alveg gríðarlega góð vinna. Ég þekki hreinlega ekki hvernig það er hjá öðrum, en þar held ég að sé eitthvað sem sé alveg þess virði að skoða. Ég hef, eins og ég segi, ekki kafað ofan í þessi gögn á sama hátt og hv. þingmaður en þessi ársfundur sýndi mér í það minnsta að á þessum vettvangi eru menn greinilega að hugsa um það að nýta allt það sem þeir fá sem allra best.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir það að vera bara hreinskilinn með það að þessi tala, 150.000, sé ekki greypt í stein. Það er örugglega ágætt fyrir komandi nefndarvinnu að vita að þessi tala sé líklega hér til viðmiðunar. Það verður áhugavert að sjá hvaða framgang þetta mál fær hér í (Forseti hringir.) vinnslu þingnefndar. Ég hlakka til að sjá hvernig þessu reiðir af, því að þetta er um margt áhugavert.