144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

upplýsingalög.

272. mál
[17:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir stofnun sem mér finnst mjög áhugavert að ræða, það er Landspítalinn. Ég þekki það mál mjög vel. Þegar ég var heilbrigðisráðherra var Landspítalinn stóri vandinn í ríkisrekstrinum, það var farið 10 ár fram úr fjárlögum, að meðaltali um milljarð á hverju ári. Það var ekkert vinsælt á þeim tíma að taka á slíkum þáttum, en ég gerði það. Ég setti nokkurs konar tilsjónarnefnd og síðan var auglýst eftir faglegum stjórnanda; það var í fyrsta skipti sem ráðinn var faglegur stjórnandi að Landspítalanum, það var í minni tíð, jafn ótrúlegt og það kann að hljóma. Þarna voru innleidd ákveðin vinnubrögð sem án nokkurs vafa skiluðu sér. Og ég held að það hafi verið gríðarlega mikilvægt, sérstaklega eftir það áfall sem bankahrunið var, að það skildi vera gert.

Það er alveg rétt, virðulegi forseti, að þar var sparað í litlu hlutunum, vegna þess að margir litlir hlutir verða mjög stórir — auðvitað var sparað í stóru hlutunum líka, en það þurfti að spara alls staðar. Mín upplifun var sú að starfsfólki Landspítalans hafi hins vegar fundist það vera nokkurn veginn eitt í þessu. Það var ekki algjörlega út í bláinn, alls ekki. Ég held að það sé ein af ástæðunum fyrir óánægjunni á Landspítalanum, að mönnum hafi fundist að þeir væru að taka virkilega á meðan þeir sáu önnur fyrirtæki og stofnanir hins opinbera ekki ganga fram með sama hætti. Þau voru að gera hlutina eins og átti að gera og ég held að það væri öðruvísi ef það hefði gengið almennt yfir línuna.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að þakka mér fyrir hreinskilnina. Mín reynsla er sú að það sé langbest að segja satt og rétt frá, ég hef ekki nógu gott minni í annað. Það er bara þannig að við vitum ekki alla hluti og þá er bara best að segja frá því. Ég held að það sé eitthvað sem allir hafa skilning á. (Forseti hringir.) Ég finn stuðning hjá hv. þingmanni og ég bind vonir við að þingflokkur Vinstri grænna verði á sömu línu (Forseti hringir.) og hv. þingmaður, því það er skynsemisrödd sem kom frá henni.