144. löggjafarþing — 99. fundur,  30. apr. 2015.

miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

647. mál
[19:38]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir máli nr. 647, frumvarpi um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara, sem eru heildarlög. Þetta er í þriðja skipti sem málið er flutt hér á þingi, einu sinni á síðasta kjörtímabili og í tvígang á þessu kjörtímabili. Það hefur þroskast og tekið nokkrum mjög svo jákvæðum breytingum á líftíma sínum, ef tala má um líftíma frumvarpa og mála. Þannig var að á síðasta kjörtímabili flutti ég þetta mál ásamt með að ég held tíu eða ellefu fyrrverandi blaðamönnum sem voru þá starfandi á Alþingi. Á þessu kjörtímabili hefur það síðan, eftir nokkrar breytingar, verið flutt sameiginlega af þingflokkum Bjartrar framtíðar og Pírata. Eftir fyrri framlagningu málsins hefur verið tekið mið af umsögnum og athugasemdum sem borist hafa og allan síðasta vetur í rauninni og þangað til núna hefur verið unnið að breytingum þannig að málið hefur tekið mjög jákvæðum breytingum í þessu ferli og er orðið þannig úr garði gert að við flutningsmenn þess erum orðin mjög sátt við það og teljum það vel tækt til afgreiðslu hér á þinginu.

Vernd uppljóstrara ef eitt af þeim verkfærum í verkfærakistu lýðræðisríkis sem nauðsynlegt er að sé til staðar. Við erum hér að tala um hornstein lýðræðisins, tjáningarfrelsið, og getu einstaklinga, hópa, félagasamtaka, til að koma á framfæri upplýsingum. Það er stundum talað um það sem mælikvarða á heilbrigði opinberrar umræðu og fjölmiðlunar hvort sá möguleiki sé fyrir hendi að allt það sem gerist í samfélagi komist til skila, að allar sögur sem vert er að segja í þjóðfélaginu eigi sér einhvern farveg þar sem hægt er að koma sannleikanum á framfæri. Fjölmiðlar eru auðvitað einn af þeim farvegum sem er auðvitað mjög mikilvægur, en síðan eru bara einfaldlega tæki og tól einstaklinga til þess að koma á framfæri því sem þeir telja mikilvægt að segja frá. Í sumum tilfellum getur það verið eitthvað sem aðrir vilja ekki að komi fram. Í sumum tilfellum getur það verið þannig að það séu upplýsingar sem varða beint almannahag en ganga gegn hagsmunum tiltekinna fyrirtækja eða stofnana eða stjórnanda. Til þess að fyrirbyggja að slíkar sögur séu hjúpaðar þögn er nauðsynlegt að hafa lagaúrræði sem tryggja réttarstöðu þeirra sem þurfa með einhverjum hætti að koma sannleikanum á framfæri.

Ég ásamt hv. þm. Birgittu Jónsdóttur ætlum að greina frá efnisatriðum greinargerðarinnar sem fylgir þessu máli sem er í einum tólf greinum til þess að rökstyðja þetta mál og nauðsyn þess.

Virðulegi forseti. Í greinargerð okkar segir:

Skoðana- og tjáningarfrelsið eru í flokki elstu og mikilvægustu réttinda þegnanna og eru óumdeilanlega ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags. Hér er vísað beint í þá vinnu sem fram hefur farið á vettvangi stjórnlagaráðs og er einn af undirliggjandi meginpunktum vinnu við nýja stjórnarskrá. Skoðana- og tjáningarfrelsið er verndað í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, auk þess sem það nýtur verndar 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 19. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Mikilvægi verndar tjáningarfrelsis er óumdeilanlegt og er vegur þess mikill í íslenskri stjórnskipan. Löggjafinn hefur styrkt réttinn til tjáningar með lagasetningu á æ fleiri sviðum og þá hafa dómstólar margsinnis viðurkennt vernd tjáningarfrelsisins í dómaframkvæmd. Tjáningarfrelsi fylgir einnig ábyrgð og það getur sætt takmörkunum, t.d. vegna veigamikilla hagsmuna einstaklinga eða þjóðfélagslegra hagsmuna. Almennt hefur þó verið litið svo á að tjáningarfrelsið sé rýmra að því er varðar þau málefni sem eigi erindi til almennings, svo sem hvað varðar umræðu um stjórnmál, stofnanir samfélagsins og málefni sem eru innlegg í þjóðfélagslega umræðu.

Ef löggjafinn eða dómstólar ganga of langt í að takmarka eða skerða tjáningarfrelsi er hætt við svokölluðum kælingaráhrifum sem geta fælt einstaklinga frá því að tjá sig um málefni sem eiga fullt erindi til almennings og varða almannahagsmuni.

Snar samfélagslegur ávinningur felst í því að koma í veg fyrir háttsemi sem felur í sér misgerð, rannsaka slíka háttsemi eða, eftir atvikum, upplýsa almenning um slíka háttsemi þegar hún varðar almannahagsmuni og veldur jafnvel tjóni á almannahagsmunum. Veigamikill þáttur í að öðlast þennan samfélagslega ávinning er að þar til bærum aðilum, m.a. þeim sem hafa aðstöðu að lögum til að rannsaka slíka misgerð, verði gert viðvart um hana eða þeir fái tækifæri til að bregðast við henni, m.a. í því skyni að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir það tjón sem af slíkri misgerð kann að stafa eða refsa þeim sem ábyrgð bera á slíkri misgerð og því tjóni sem af henni kann að hafa hlotist.

Vakin er athygli á því að um áratugaskeið hafa uppljóstrarar gegnt veigamiklu hlutverki í að miðla upplýsingum um misgerðir til rannsóknar- eða eftirlitsaðila eða jafnvel til fjölmiðla, þannig að almenningur sé upplýstur um slíka háttsemi. Fjöldamörg alþekkt dæmi má nefna erlendis frá, eins og Mark Felt sem gekk undir nafninu Deep Throat en hann upplýsti blaðamennina Woodward og Bernstein um misgerðir Richards Nixons á meðan hann gegndi embætti forseta Bandaríkjanna. Þá má nefna Karen Silkwood sem ásakaði Kerr-McGee-orkuveituna um umhverfisafglöp og lést sviplega skömmu seinna. Sherron Watkins gegndi lykilstöðu hjá bandaríska orkufyrirtækinu Enron. Þegar hún tilkynnti Kenneth Lay, stjórnarformanni fyrirtækisins, um stórfelldar bókhaldsmisfellur hjá fyrirtækinu var hún færð niður um stöðu og hætti síðan störfum ári síðar. Nýlegustu erlendu dæmin eru uppljóstranir sem farið hafa fram á vefsíðunni WikiLeaks og uppljóstranir Edwards Snowdens sumarið 2013. Snowden ljóstraði upp um víðtækar persónunjósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, og bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, bæði í Bandaríkjunum og í samstarfi við evrópsk stjórnvöld. Hann er nú á flótta og dvelst í Rússlandi, en bandarísk stjórnvöld vilja að hann svari til saka fyrir uppljóstrunina í heimalandi sínu.

Þess má geta í þessu samhengi að tillaga um að veita Snowden pólitískt hæli var því miður felld hér af meiri hluta þingsins í upphafi þessa kjörtímabils.

Í íslensku þjóðfélagi hafa uppljóstrarar einnig gegnt mikilvægu hlutverki við að koma upplýsingum um misgerðir sem varða almannahagsmuni á framfæri. Þess konar mál koma reglulega til umræðu í þjóðfélaginu fyrir tilstilli fjölmiðla. Slík mál geta átt brýnt erindi til almennings en minna hefur þó farið fyrir umfjöllun um afleiðingar umfjöllunarinnar fyrir þann sem miðlaði upplýsingunum til fjölmiðla, þ.e. fyrir uppljóstrarann. Algengt er að þar hafi verið um að ræða starfsmann hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar eða mann með öðrum hætti nátengdan þeirri starfsemi sem upplýsingarnar varða í hvert sinn. Einnig er mjög algengt að starfsmaður sé látinn gjalda fyrir uppljóstrunina, svo sem að hann missi í kjölfarið starf sitt.

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert að rifja upp í þessu samhengi eitt nýlegt mál sem við sem samfélag höfum gengið í gegnum og stjórnmálin fengist við með að því er ég tel mjög jákvæðum hætti. Það er lekamálið svokallaða sem ég vil tengja þessu umfjöllunarefni vegna þess að það er athyglisvert að velta fyrir sér brotthvarfi fyrrverandi lögreglustjóra í Reykjavík, Stefáns Eiríkssonar, sem lét af störfum í miðju lekamálinu en gat þess hvergi af hvaða ástæðu það var. Hann lét hins vegar að því liggja með tilvísun í lag eftir Bítlana sem var með textabroti sem hljómaði einhvern veginn þannig „að hún hefði komið inn um baðherbergisgluggann með silfurskeið í munni“. Menn máttu lesa í það að sitthvað hefði gerst í samskiptum lögreglustjórans í Reykjavík og fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra. Auðvitað er erfitt að leggja beinar túlkanir í slíkt, en menn vita líka hver eftirmáli þess máls var og hvað hefur komið í ljós í framhaldinu um samskipti lögreglustjórans og ráðherrans fyrrverandi. Í ljós hefur komið að fram fóru samskipti sem voru í alla staði mjög óeðlileg og áttu að öllu leyti erindi við almenning, þ.e. sá skilningur sem birtist í samskiptum ráðherrans við undirstofnun ráðuneytis sem hún veitti forstöðu og fór með rannsókn á hendur henni og beitingu hennar á pólitísku valdi, í pólitískri skrifstofu hennar í ráðuneytinu. Það má getum að því leiða að aðferð lögreglustjórans við að vekja athygli á þessu máli hefði mögulega orðið allt önnur ef við hefðum löggjöf sem verndaði beinlínis einstakling sem gegndi viðlíka stöðu. Hugmyndin á bak við þann lagaramma sem hér er kynntur til sögunnar er að ekki sé hægt að láta það bitna á einstaklingi, fari hann og taki sér stöðu uppljóstrara í máli sem varðar almannahag.

Ég ætla að hefja aftur lestur greinargerðarinnar þar sem frá var horfið áður en ég hóf að fjalla um sérstaklega um nýlegt lekamál sem við höfum afgreitt hér í pólitíkinni á Íslandi.

Fyrrgreindar afleiðingar uppljóstrunar fyrir uppljóstrarann, og aðrar verri, hafa eðli málsins samkvæmt kælingaráhrif á miðlun upplýsinga sem þessara þar sem uppljóstrarar hljóta að veigra sér við að koma upplýsingum á framfæri af ótta við afleiðingarnar. Þeir eru einnig oft bundnir lagalegum eða samningsbundnum trúnaðar- og þagnarskyldum gagnvart vinnuveitanda sínum og gætu jafnframt átt á hættu að þurfa að sæta afleiðingum uppljóstrunar samkvæmt því. Þá geta refsiákvæði átt við þegar þagnarskyldu- eða trúnaðarskylduákvæði laga eru brotin.

Af sambærilegum ástæðum hefur verið lögð áhersla á vernd uppljóstrara á vettvangi alþjóðastofnana auk þess sem fjöldamörg ríki hafa þegar breytt lögum eða hafið slíkt ferli til verndar uppljóstrurum með það að markmiði að hvetja einstaklinga til að miðla upplýsingum um misgjörðir.

Í alþjóðasamningum er varða baráttuna gegn spillingu hefur einn mikilvægasti þátturinn í að uppræta og upplýsa um slíka háttsemi verið sá að stuðla að vernd þeirra einstaklinga sem koma upplýsingum um spillingu á framfæri. Má um það meðal annars vísa til 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem fullgiltur var af hálfu Íslands 1. mars 2011. Einnig vísast hér til 9. gr. samnings Evrópuráðsins á sviði einkamálaréttar um spillingu, sem Ísland undirritaði 4. nóvember 1999 en hefur ekki fullgilt, og 22. gr. samnings Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu sem fullgiltur var af hálfu Íslands 11. febrúar 2004. Frjáls og alþjóðleg félagasamtök sem vinna gegn spillingu hafa jafnframt lagt áherslu á mikilvægi þess að uppljóstrarar njóti verndar að lögum. Samtökin Transparency International veita í því sambandi ráðgjöf, m.a. til uppljóstrara, auk þess sem þau hafa gefið út leiðbeiningarreglur fyrir stjórnvöld til að horfa til við samningu lagafrumvarpa um vernd uppljóstrara. Þess má geta í þessu samhengi að hér á landi starfa nýstofnuð samtök, Gagnsæi – Samtök gegn spillingu, og hafa þau hug á að sækja um deildaraðild að Transparency International.

Gráglettni örlaganna olli því í kvöld að á sama tíma og ég er að mæla fyrir þessu máli átti ég að vera að kynna þetta mál fyrir Gagnsæi – Samtökum gegn spillingu, þannig geta nú hlutirnir stundum gerst.

Þing Evrópuráðsins hefur ítrekað ályktað um nauðsyn á aukinni vernd uppljóstrara. Ber þar hæst ályktun nr. 1729/2010 og ályktun nr. 1916/2010. Í fyrri ályktuninni eru uppljóstrarar skilgreindir sem einstaklingar sem vekja athygli á misgerð sem setur aðra þjóðfélagsþegna í tiltekna hættu. Lögð er áhersla á að uppljóstranir séu tækifæri til að láta aðila bera ábyrgð í þjóðfélaginu og vopn í baráttunni gegn spillingu og óstjórn, hjá hinu opinbera en einnig í einkageiranum. Í ályktuninni kemur fram að mikill fælingarmáttur sé fólginn í óttanum við hefndaraðgerðir gagnvart fyrirhuguðum eða hugsanlegum uppljóstrurum. Bent er á að í Bretlandi finnist nýleg dæmi um stórslys sem hefði mátt koma í veg fyrir og að það hafi orðið til þess að þar voru sett framsækin lög um vernd uppljóstrara, eins og nánar er fjallað um hér síðar. Hins vegar hafi fæst aðildarríki Evrópuráðsins sett jafn yfirgripsmikil lög og Bretland varðandi slíka vernd. Vissulega séu þó til staðar misvíðtækar reglur í aðildarríkjunum varðandi uppljóstrara. Þing Evrópuráðsins hvetur í ályktun sinni öll aðildarríki til að yfirfara löggjöf sína með tilliti til verndar uppljóstrara og getur sérstaklega ýmissa leiðbeinandi meginreglna sem hafa á að leiðarljósi.

Leiðbeiningarreglurnar í ályktuninni hafa verið leiðarljós við samningu lagafrumvarps þessa að því leyti að gætt hefur verið að því að ekki sé gengið skemur í vernd uppljóstrara en þar er kveðið á um. Helstu efnisatriði leiðbeiningarreglna ályktunarinnar eru eftirfarandi: Leiðbeiningarreglurnar kveða á um að sett verði víðfeðm löggjöf sem taki bæði til hins opinbera og einkaaðila. Slík löggjöf ætti að heimila miðlun upplýsinga um ólögmæta háttsemi, m.a. öll mannréttindabrot sem ógna eða hafa áhrif á líf, heilsu, frelsi og aðra hagsmuni einstaklinga sem stjórnsýslureglur ná til og eru skattgreiðendur eða jafnvel hluthafar, starfsmenn eða viðskiptavinir einkafyrirtækja. Setja þurfi lagareglur á sviði vinnuréttar til að vernda uppljóstrara gegn ólögmætum uppsögnum. Þá þurfi að setja reglur á sviði refsiréttar og réttarfars sem verndi uppljóstrara gegn refsingum fyrir meiðyrði eða brot á þagnarskylduákvæðum laga. Loks þurfi að setja reglur á sviði fjölmiðla til verndar heimildarmönnum. Jafnframt þurfi að grípa til aðgerða til að sporna við spillingu. Lögð er áhersla á að löggjöf um vernd uppljóstrara eigi að veita uppljóstrurum annan valkost en að þegja um vitneskju sína, sem og hvetja stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja til að setja sér innri reglur um uppljóstranir. Þannig megi tryggja rannsókn misgjörða og að upplýsingum sé miðlað áfram til þeirra valdameiri innan fyrirtækja eða stofnana eða enn lengra ef nauðsyn þykir. Nafnleysi uppljóstrara eigi að hafa í heiðri nema uppljóstrarinn sjálfur vilji koma fram undir nafni eða ef nauðsynlegt sé að greina frá nafni hans til að koma í veg fyrir alvarlega og yfirvofandi ógn við almannahagsmuni. Löggjöfin eigi að vernda alla þá sem í góðri trú nýta sér innri uppljóstrun gagnvart mögulegum hefndaraðgerðum. Ef engir ferlar fyrir innri uppljóstrun eru til staðar eða virka ekki sem skyldi, eða uppljóstrarinn hefur ástæðu til að ætla að þeir virki ekki með vísan til efnis upplýsinganna, eigi einnig að tryggja möguleika á ytri uppljóstrun, m.a. á vettvangi fjölmiðla. Uppljóstrari skal talinn vera í góðri trú hafi hann ástæðu til að ætla að miðlaðar upplýsingar séu réttar, jafnvel þó að síðar komi í ljós að svo hafi ekki verið. Þá skal uppljóstrari talinn vera í góðri trú ef háttsemi hans við uppljóstrunina er hvorki ólögmæt, ólögleg né óforsvaranleg. Löggjöf skal kveða á um leiðir fyrir uppljóstrara til að gæta hagsmuna sinna og leiðrétta allar misgjörðir gegn uppljóstrara sem framdar eru vegna uppljóstrunar. Þá skal einnig kveða á um vernd gegn ásökunum sem gerðar eru í vondri trú.

Síðari ályktun þings Evrópuráðsins, nr. 1916/2010, inniheldur tilmæli þingsins til ráðherranefndar Evrópuráðsins um að semja leiðbeiningarreglur um vernd uppljóstrara. Þá eru ríki hvött til að yfirfara fyrirliggjandi löggjöf sinna heimalanda og meta hvort hún standist þau lágmarksskilyrði sem sett eru fram í ályktununum tveimur. Jafnframt er hvatt til gerðar alþjóðasamnings um vernd uppljóstrara.

Í apríl 2014 samþykkti ráðherranefndin tilmæli um vernd uppljóstrara. Ráðherranefndin beinir þeim tilmælum til aðildarríkja Evrópuráðsins að til staðar sé kerfi í hverju ríki fyrir sig sem ætlað er að vernda einstaklinga sem eru í sérstöku vinnuréttarlegu sambandi og tilkynna eða ljóstra upp um upplýsingar sem varða ógn eða hættu gegn almannahagsmunum. Tilmælunum fylgja enn fremur leiðbeiningarreglur, áþekkar þeim sem fram koma í ályktun þings Evrópuráðsins nr. 1729/2010.

Ég ætla ekki að fara lengra inn í greinargerð þessa máls og geri ráð fyrir því að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir taki hér afganginn af þessu máli enda höfum við bæði borið hitann og þungann af því og starfsmenn, ekki síst starfsmenn okkar þingflokka, að gera það jafn vel úr garði og það er orðið núna.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að hér hefur farið fram töluverð vinna, ekki bara okkar heldur á öðrum stöðum í samfélaginu. Samtök, opinberir aðilar og fyrirtæki hafa sent inn umsagnir um frumvarpið sem hafa orðið til þess að bæta það og það er þess vegna orðið mjög burðugt til áframhaldandi vinnu hér í þinginu. Þess vegna kemur það manni svolítið spánskt fyrir sjónir, virðulegi forseti, að sjá það bara fyrir nokkrum dögum að hæstv. fjármálaráðherra er að leggja fram mál hér í þinginu sem m.a. felur í sér að skoðað verði hvort setja þurfi lög um uppljóstrara og hvaða breytingar þurfi þá að gera á íslensku lagaumhverfi, eins og sú vinna sem hér hefur verið unnin sem er margþætt og umfangsmikil hafi hvergi átt sér stað. Það er auðvitað áhyggjuefni, en því er þá a.m.k. komið á framfæri að hér er um að ræða fullburðugt lagafrumvarp, heildarlög um vernd uppljóstrara sem þingið á að taka hér til umfjöllunar.

Það hefði verið mjög æskilegt ef við hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefðum getað staðið samtímis hér í ræðustólnum og flutt þetta mál, en úr því það er ekki hægt höfum við skipt þessu á milli okkar með þessum hætti og ég gef boltann yfir til hennar.