144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

aðgangur landsmanna að háhraðatengingu.

[15:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt úr umræðunni hér í síðustu viku um fjarskiptamál að það var almennur samhljómur í þingsal um mikilvægi þess að ljúka við uppbyggingu á fjarskiptanetinu sem og það að hér séum við að tala um grunnþjónustu alveg með sama hætti og við erum að tala um vegi sem við keyrum á um landið. Það er mjög mikilvæg niðurstaða sem er sameiginleg að mínu mati hjá þingmönnum hér. Og að því er núna unnið af hálfu stjórnvalda á grundvelli þessarar skýrslu sem hv. þingmaður nefndi. Því er ekki lokið, þ.e. að finna hvaða leiðir verða farnar, en viljinn stendur alveg skýr til þess að þetta verði gert. Og ég hef verið eindregið þeirrar skoðunar að hérna sé um að ræða eitt mesta frelsismál fólks til búsetu og vinnu hér í landi, að geta ráðið sjálft hvar það býr og geta stundað sína atvinnustarfsemi þaðan. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál sem er mikill vilji af hálfu þessarar ríkisstjórnar til að halda áfram með.

Að sjálfsögðu fögnum við því öll að það fáist frekari stuðningur við slík mál í þinginu og að umræða sé góð í þinginu, en það er hins vegar ekki mitt verkefni að forgangsraða málum í nefndum, það er náttúrlega á vettvangi þingmanna að gera það. Ég er ekki svo lánsöm að vera ein af þessum 63 þingmönnum þannig að ég mun ekki hafa afskipti af því með hvaða hætti þingnefndir forgangsraða sínum störfum. Það þykir mér ekki vera mitt hlutverk.

Ég get þó sagt aftur að það mikilvægasta í þessu öllu er að við erum sammála um þessi grunnviðmið. Síðan snýst þetta allt um fé eins og við ræddum. Við þurfum að fá peninga til að gera hlutina. Orð eru dýr, eins og hv. þingmaður veit, þannig að við skulum passa okkur á að lofa ekki upp í ermina á okkur heldur tryggja fjármuni svo hægt sé að fara í verkið. Þá er ég viss um að til lengri tíma litið verði um að ræða eitt mesta frelsismál sem við höfum séð lengi.