144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga og förum með löggjafar- og fjárveitingavald, og við höfum líka eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Það hlutverk rækjum við með fyrirspurnum af ýmsu tagi, meðal annars og í tíma eins og þessum, sem er venjulega á mánudögum, með undirbúnum fyrirspurnum til munnlegs svars. Það er ótrúleg vanvirðing við þetta hlutverk okkar að klára ekki svör við slíkum fyrirspurnum og kannski í anda þess þegar stjórnarþingmenn koma hér upp og telja helst upp hversu oft við kvörtum í minni hlutanum og tala um að við gösprum og blöðrum þegar við rækjum hlutverk okkar. Ég óska eftir því að hæstv. forseti taki það upp við hæstv. forsætisráðherra að hann virði leikreglurnar í þessum sal. Ekki veitir af (Forseti hringir.) að Alþingi starfi í samræmi við reglur og hefðir.