144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að fagna hér sérstaklega niðurstöðum starfshóps um matarsóun sem nýlega skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu um tillögur til úrbóta. Mig langar jafnframt að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur það frumkvæði sem hún hefur sýnt við að koma málefninu á dagskrá hér.

Samkvæmt skilgreiningu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna vísar sóun matvæla til þess hluta matarsóunar sem nýta hefði mátt til manneldis. Ábyrgð okkar sem búum í tekjuhærri samfélögum heimsins er mikil þar sem sóunina hér má að miklu leyti rekja til hegðunar okkar og venja í daglegu lífi meðan sóunina í tekjulægri samfélögum heimsins frekar rekja til tæknilegra vandamála við framleiðslu, dreifingu og geymslu matvæla.

Í skýrslunni er að finna tillögur sem lúta að rannsóknum á matarsóun, fræðslu til neytenda og vitundarvakningu, geymslu og merkingu matvæla, framleiðslu, dreifingu og sölu matvæla og matarsóun í stóreldhúsum, veitingahúsum og mötuneytum.

Ég hvet hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur, til að fylgja tillögum vinnuhópsins eftir og forgangsraða þeim. Að mínu áliti er mikilvægt að efla samstarf við félög, fyrirtæki og stofnanir um verkefnið en einnig vil ég sérstaklega taka undir að mikilvægt er að vinna með skólum og skólamötuneytum á öllum skólastigum. Þá er einmitt upplagt að flétta verkefnið inn í grænfánaverkefnin sem unnin eru í mörgum skólum jafnframt tengingu inn í ýmsar námsgreinar.

Til þess að þetta verði mögulegt er mikilvægt að til verði aðgengilegt fræðsluefni fyrir nemendur og kennara.

Vinna gegn matarsóun er gríðarlega mikilvægt verkefni eitt og sér en ég hvet ráðherra til að tengja hana vinnu við að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu að öðru leyti, svo sem áhrifum vatnsnotkunar, áburðarnotkunar og flutnings á matvöru langar leiðir og að vinna markvisst að því að sá lífræni úrgangur sem óhjákvæmilega fellur til nýtist til moltugerðar.