144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hef nefnt áður í þessum ræðustól að það er stundum eins og hæstv. ráðherrar líti helst á það sem hlutverk sitt hér í fyrirspurnatímum að svara ekki spurningum eða snúa út úr spurningum þingmanna. Reyndar er það svo að ungt fólk sem var í hlutverkaleik sem stjórnmálamenn fékk þá leiðbeiningu frá kennara sínum að þau ætti aldrei að svara spurningum sem það væri spurt heldur bara tala um það sem þau vildu. Þetta er nú það sem við höfum fyrir fólki.

Í fyrirspurnatíma lesa ráðherrar gjarnan upp texta sem skrifaður hefur verið fyrir þá. Sá texti lýsir oftast því ástandi sem ríkir í málaflokknum sem spurt er um en er sjaldnast svar við hinni eiginlegu spurningu. Nýjasta trikkið er svo að ljúka ekki við að svara spurningum þingmanna heldur bara fara fram og fá sér tertusneið.

Í óundirbúnum fyrirspurnum er hið sama upp á teningnum. Um málefni Menntaskólans í Reykjavík sagði hæstv. menntamálaráðherra í svari við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, með leyfi forseta:

„Ég er heldur ekki viss um að Menntaskólinn í Reykjavík vilji vera til dæmis eini skólinn með fjögurra ára nám, þ.e. frá 16–20 ára, ég er ekki alveg viss um að svo sé, enda snúa þær hugmyndir sem ég hef heyrt frá þeim skóla ekki að því.“

Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra. Tillögur Menntaskólans í Reykjavík snúa ekki að því, en hvers vegna svaraði hann þá ekki spurningunni um hvort hann væri tilbúinn að hlusta á tillögur Menntaskólans í Reykjavík um að taka nemendur inn í skólann eftir 9. bekk og útskrifa fólk 19 ára frá skólanum eftir fjögurra ára nám? Hvers vegna í ósköpunum getur ráðherra menntamála ekki svarað þessari spurningu í stað þess að vera með eintóma útúrsnúninga?